« Ritningarlesturinn 30. ágúst 2006Evkaristían verður að vera þungamiðjan í líf okkar: II »

29.08.06

  07:20:52, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 762 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 29. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 6. 17-29

En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana, en Jóhannes hafði sagt við Heródes: „Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns.“ Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki, því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann. En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu. Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: „Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér.“ Og hann sór henni: „Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns.“ Hún gekk þá út og spurði móður sína: „Um hvað á ég að biðja?“ Hún svaraði: „Höfuð Jóhannesar skírara.“ Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: „Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara.“ Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa, heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu, kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni. Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf.
Í dag heiðrar kirkjan: Jóhannes skírara. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II. Hugvekja í minningu trúarvottanna á tuttugustu öldinni, haldin þann 7. maí árið 2000: „Að bera sannleikanum vitni frammi fyrir illskunni“

„Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður“ (Mt 5. 11-12). Hversu vel eiga þau ekki við þessi orð um hina trúna á síðastliðinni öld, sem hefur verið smánuð og ofsótt, án þess þó að láta undan gagnvart máttarvöldum illskunnar.

Þar sem hatrið virtist eitra allt lífið og ekki veita neina undankomu frá rökhyggju sinni, sönnuðu hinir trúuðu að „lífið er sterkara en dauðinn“ (Ll 8. 6). Í skelfilegu kerfi áþjánar sem afskræmdi manninn, á kvalalostastöðum og sviptir öllu, í tilgangslausum helgöngum og naktir og hungraðir, sárpíndir og þjáningum hlaðnir með margvíslegum hætti, játuðu þeir af eindrægni hlýðni sína við Krist krossfestan og upprisinn. . .

Fjölmargir neituðu að beygja sig fyrir menningu falsguða tuttugustu aldarinnar og urðu fórnarlömb kommúnismans, nasismans, skurðgoða ríkis og kynþáttastefnu. Fjölmargir aðrir féllu í kynþátta- eða ættflokkaátökum vegna þess að þeir höfnuðu hugmyndafræði sem stangaðist á við fagnaðarerindi Krists. Sumir fórnuðu lífinu vegna þess að þeir ákváðu að dvelja með fólki sínu eins og Góði hirðirinn þrátt fyrir ógnanir. Í öllum heimsálfum og í gegnum alla tuttugustu öldina má sjá þá sem fremur kusu að deyja fremur en að svíkja köllun sína. Karlar og konur í reglunum héldu heit sitt og úthelltu blóði sínu. Karlar og konur lögðu líf sitt í sölurnar sökum elsku til meðbræðra sinna og systra, einkum sökum þeirra snauðustu og vanmáttugustu. Fjölmargar konur lögðu líf sitt í sölurnar til að varðveita manngildi sitt og hreinleika. „Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs“ (Jh 12. 25).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet