« Ritningarlesturinn 29. október 200616. Hið Alhelga Hjarta Jesú – lokaorð »

28.10.06

  08:26:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 488 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 28. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 6. 12-16

En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula. Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari, 16og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari.
Í dag heiðrar kirkjan: Heilaga Símon og Júdas (Taddeus) postula. Hugleiðing dagsins: Heil. Kýrillos frá Alexandríu (380-444), biskup og kirkjufræðari. Ritskýringar við Jóhannesarguðspjall 3, 130: „Hann valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula.“

Drottinn okkar Jesús Kristur skipaði leiðbeinendur og uppfræðara öllum heiminum til handa rétt eins „ráðsmenn yfir leyndardóma Guðs“ (1Kor 4. 1). Hann bauð þeim að skína og miðla ljósi líkt og kyndlar og ekki einungis í landi Gyðinganna, heldur fyrir allt fólk undir sólinni sem lifir á jörðu. Þannig rættust orð heilags Páls: „Enginn tekur sér sjálfur þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði“ (Heb 5. 4).

Ef hann trúði því að hann hefði sent lærisveina sína eins og Faðir hans sendi hann (Jh 20. 21), þá var það þeim sem voru kallaðir nauðsyn að taka hann sér að fyrirmynd til að gera sér ljóst til hvers Faðirinn hafði sent Soninn. Þannig útskýrir hann fyrir okkur með margvíslegum hætti inntak síns eigin köllunarverks. Dag einn sagði hann: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar“ (Lk 5. 32). Og enn og aftur: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess er sendi mig“ (Jh 6. 38). Og við annað tækifæri: „Guð sendi ekki Soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann“ (Jh 3. 17).

Hann dróg hlutverk postulanna saman í fáum orðum þegar hann sagði, að hann hefði sent þá rétt eins og Faðirinn hafði sent hann. Með þessu var þeim gert ljóst að þeim hafði verið falin sú ábyrgð á hendur að kalla syndarana til iðrunar, að annast sjúka bæði líkamlega og andlega og að þeir ættu aldrei að leita síns eiginn vilja í ráðsmennsku sinni, heldur vilja þess sem sendi þá. Og að lokum að frelsa heiminn með hliðsjón af kenningum Drottins.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet