« Ritningarlesturinn 29. nóvember 2006Ritningarlesturinn 27. nóvember 2006 »

28.11.06

  09:02:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 753 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 28. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 21. 5-11

Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús: „Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ En þeir spurðu hann: „Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?“ Hann svaraði: „Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!' og ,Tíminn er í nánd!' Fylgið þeim ekki. En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis.“ Síðan sagði hann við þá: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.“
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Jakob frá Marche í Acona, Ítalíu (1394-1476). Hugleiðing dagsins: Benedikt páfi XVI. Úr hugvekju fluttri á 20. Heimsdegi æskunnar: „En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki.“

Hinir heilögu vísa okkur veginn til hamingjunnar og leiða okkur hina sönnu mennsku fyrir sjónir. Í öllum sviptingum sögunnar voru þeir hinir sönnu umbótamenn sem komu í veg fyrir að hún steyptist niður í dal svartnættisins. Það voru þeir sem vörpuðu ávallt því ljósi á hana sem vísaði veginn, jafnvel í þjáningunum miðjum, þeim orðum Guðs sem hann mælti við lok sköpunarinnar: „Og sjá, það var harla gott“ (1M 1. 31).

Við þurfum einungis að minnast fólks eins og heil. Benedikts, heil. Frans frá Assisí, heil. Teresu frá Avíla, heil. Ignatíusar frá Loyola og heil. Karls Borromeo, sem stofnaði trúarreglu á nítjándi öld sem veitti þróun samfélagsins mikinn innblástur. Eða þá hinna heilögu á okkar eigin tímum: Maximilian Kolbe, Edith Stein, móðir Teresu og Padre Pio. Þegar við hugleiðum líf þessa fólks lærist okkur hvað felst í því „að tilbiðja“ og hvað býr því að baki að lifa með sama hætti og Betlehemsbarnið, í samræmi við gildismat Jesú Krists og sjálfs Guðs.

Eins og við höfum sagt eru það hinir heilögu sem eru hinir sönnu umbótamenn. Nú langar mig að orða þetta með enn róttækari hætti: Það er einungis frá hinum heilögu, aðeins frá Guði, sem hin sanna bylting kemur, hin áþreifanlega leið til að umbreyta heiminum.

Á síðustu öld horfðum við upp á byltingar sem áttu eitt sameiginlegt: Að vænta einskis meira af hálfu Guðs. Þær gengu út frá eigin ábyrgð gagnvart heimsbyggðinni til að umbreyta henni. Og eins og við sjáum fól þetta í sér að mennsk og brotakennd afstaða var ávallt höfð að leiðarljósi. Að gera það algilt sem ekki er algilt, afstæðishyggju sem fólst í alræði. Það frelsar manninn ekki, heldur sviptir hann tign sinni og hneppir í þrældómsfjötra.

Það er ekki hugmyndafræðin sem bjargar heiminum, heldur einungis það að snúa til baka til lifandi Guðs, Skapara okkar. Þetta er trygging frelsis okkar, trygging þess sem er í raun og veru gott og sannleikanum samkvæmt. Hin sanna bylting felst einfaldlega í því að snúa sér til Guðs sem er mælikvarði þess sem er rétt og jafnframt hin óþrjótandi elska. Og hvað getur orðið okkur til bjargar annað en elskan?

Kæru vinir! Leyfið mér einungis að bæta þessum athugasemdum við.

Fjölmargir tala um Guð og sumir predika jafnvel hatur og boða ofbeldi í nafni Guðs. Þannig er mikilvægt að uppgötva hina sönnu ásýnd Guðs. Vitringarnir frá Austurlöndum uppgötvuðu hana þegar þeir krupu niður frammi fyrir Betlehemsbarninu: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð Föðurinn“ (Jh 14. 9). Í Jesú Kristi sem lét gegnumnísta hjarta sitt sökum okkar sjáum við hina sönnu ásjónu Guðs. Við munum fylgja honum eftir ásamt þeim mikla fjölda sem gerði það á undan okkur. Þá munum við ganga hinn rétta veg.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet