« Ritningarlesturinn 29. júlí 2006Ritningarlesturinn 27. júlí 2006 »

28.07.06

  14:50:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 649 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 28. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 13. 18-23

Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir: Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta. Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það, en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar. Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.

Í dag minnist kirkjan: Heil. Leopolds Mandic (1887-1942), kapúsína og samkirkjusinna. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), biskup í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari, 44. hugvekja um heil. Matteus: „Sérhver sem hefur eyru, hann heyri.“

Nú greindi Kristur frá þessum hlutum í dæmisögunni um sáðmanninn og sýnir þar með fram á, að hann fer ekki í manngreinarálit. Rétt eins og sáðmaðurinn gerir engan mun á því landi sem honum er falið í hendur, heldur sáir í það allt, þá gerir Kristur engan greinarmun á ríkum og fátækum, vitrum og fávísum, hirðulausum og iðnum, hugrökkum og þeim huglausu. Hann mælir jafnt til allra og fullkomnar þar með sitt verk, þrátt fyrir að hann geri sér árangurinn ljósan fyrirfram og þannig getur hann sagt með réttu: „Hvað var meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann?“ (Jes 5. 4) . . .

En hann segir þessa dæmisögu til að smyrja lærisveina sína og þeim til uppfræðslu. Jafnvel þó að hinir glötuðu verði fleiri en þeir sem meðtaka orðið ber að sinna þeim. Þetta var það sem Drottinn gerði sjálfur og þrátt fyrir að hann sæi fyrir hver árangurinn yrði, lét hann ekki undir höfuð leggjast að sá.

Hvernig getur það talist skynsamlegt að sá á meðal þyrna,í grýtta jörð eða við götuna? Hvað áhrærir sæðið og jörðina er þetta rétt. En hvað lýtur að sálum mannanna og uppfræðslu þeirra er þetta lofsvert og ber ríkulegan ávöxt. Álasa mætti akuryrkjumanninum fyrir slíkt vegna þess að útilokað er að grýtt jörð verði að ræktarlandi eða að gatan hætti að verða annað en gata og þyrnar þyrnar. En þetta gegnir ekki um hið huglæga svið. Þar getur grýtt jörð orðið að ræktarlandi og gatan gegnt öðru hlutverki en að vera einungis gata þar sem allir geta farið um að vild. Hún getur orðið að frjósamri jörð, þar er unnt að rífa þyrnana upp með rótum og sæðið blómstrað. Ef slíkt væri útilokað hefði þessi Sáðmaður ekki sáð sæði sínu. Og ef þessi breyting á sér ekki stað í öllum, þá er það ekki sök Sáðmannsins heldur þess sem streitist á móti því að breytast. Sáðmaðurinn hefur gert skyldu sína og ef þeir vanrækja það sem þeir hafa þegið úr hans hendi er ekki unnt að álasa honum sem auðsýnir mönnunum slíka elsku.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet