« Evkaristían verður að vera þungamiðjan í líf okkar: IIEvkaristían verður að vera þungamiðjan í lífi okkar: I »

28.08.06

  06:29:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 687 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 28. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 23. 13-23

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.] Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð. Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.' Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið? Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.' Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina? Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er. Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr. Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr. Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Ágústínus frá Hippo (d. 430), kirkjuföður og píslarvott. Hugleiðing: Pistlar Barnabasar (um 130), 18 og 19: „Veljið veginn til Konungsríkisins“

Vegir uppfræðslu og máttar eru tveir. Annar þeirra er vegur ljóssins, hinn vegur myrkursins. Munurinn á þessum tveimur vegum er mikill. Annars þessara vega gæta ljósenglar Guðs, englar Satans vaka yfir hinum. . .

Þetta er vegur ljóssins: Ef einhver þráir að ganga þennan veg til ákvörðunarstaðar þessa [konungsríkis himnanna] á hann að vera fullur ákafa. Sú þekking sem við öðlumst þá svo að við getum gengið veginn er eftirfarandi. Þér ber að elska þann sem skapaði þig og óttast. þér ber að vegsama þann sem leysti þig undan valdi dauðans. Þér ber að ganga í hjartans einfeldni og í auðlegð andans. Þú skalt ekki leggja lag þitt við þá sem ganga veg dauðans. Þú átt ekki að upphefja sjálfan þig heldur vera lítillátur í öllum efnum. Þú skalt ekki afla þér sjálfum vegsemdar. Þú skalt ekki hyggja á eitthvað illt gegn náunga þínum. . . Vertu auðmjúkur og hljóðlátur og óttast orð þau sem þú heyrir fólk láta falla. Berðu ekki illan hug í brjósti til náunga þíns.

Þú skalt ekki hafa áhyggjur af því hvort eitthvað nái fram að ganga eða ekki. Þú skalt ekki vanvirða nafn Drottins með hégómaskap. Þér ber að elska náunga þinn meira en þína eigin sál. . . Þú skalt ekki myrða barn með fósturdeyðingu fremur en að deyða það eftir fæðingu. Þau óhöpp sem bera að höndum skalt þú líta á sem af hinu góða í vissu þess að ekkert gerist án vitundar Guðs.

Þú skalt deila öllu með náunga þínum og ekki að líta á neitt sem þitt eigið. Ef þú ert hluttakandi í því sem er óforgengilegt, hversu fremur á það þá ekki að gilda um hið forgengilega. Þú skalt hata hinn illa. Vertu réttlátur í dómum. Efndu ekki til deilna í söfnuðinum, heldur skaltu stuðla að friði meðal deilenda. Játaðu syndir þínar. Þú skalt ekki leggja rækt við bænalífið ef samviska þín er ekki hrein.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

6 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hjartans þakkir, Jón, fyrir pistilinn frá Barnabas (eða hver sem höfundurinn var), sem stendur mjög nærri upptökum kristinnar kirkju. Í þeim seinni hluta bréfsins, sem fjallar um um vegina tvo, er hann sagður [1] byggja á sömu heimild og hið forna kirkjurit Didache eða Tólfpostulakenningin, og söm er hér kenning Barnabasarbréfs og þess rits, að ekki leyfist að drepa barn með fósturdeyðingu – né heldur að bera út börn, sem var útbreiddur siður meðal heiðingja, jafnt við Miðjarðarhaf sem hér á Íslandi. Hvar sem kristindómurinn tók yfir sem trú landanna, útrýmdi hann hvorum tveggja ósiðnum. Þegar þjóðirnar fóru að ganga af trúnni, kom hvort tveggja aftur, fyrst fósturdeyðingarnar í tugmilljónatali, síðan “líknardráp” hinna nýfæddu.
––––––
[1] The Westminster Dictionary of Church History, ed. JC Brauer, Philadelphia 1971, s. 88, ‘Barnabas, Epistle of’.

28.08.06 @ 09:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Bræðralag kristinna trúarkenninga (stofnað 1552) sendir mér þetta efni á nóttinni, þannig að það bíður mín á tölvunni á morgnana, svo að þetta er allt saman þeim að þakka, ekki mér.

En vissulega er það dýrmætt að eiga aðgang að skrifum frumkristinna manna. Merkilegt er einnig að lesa um það hvernig Drottinn er bókstaflega að skrifa Postulasögu sína hina nýju með þjáningum og píslum þessara kínversku bræðra okkar og systra.

Þetta er það sem hl. Silúan sagði að hann myndi gera: „Ef við yrðum af einhverri ástæðu sviptir heil. Ritningum myndi Heilagur Andi rita þær að nýju á hjartaspjöld úr holdi, ef til vill ekki með sömu orðum, en boðskapurinn væri einn og samur.

Þetta er að gerast í Kína í dag á okkar eigin tímum. Mikið mega þeir kristnu menn iðrast sem hafna sannleiksorði Heilags Anda. Þú veist það bróðir, jafnvel og ég, hvað Andinn sagði um kynvillu í Didache!

28.08.06 @ 10:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þýðing Reynis K. Guðmundssonar á Didache:

2. Annað boðið í kenningunni þýðir: Fremdu eigi morð, hjúskaparbrot, sódómsku, skírlífsbrot eða þjófnað. Legg eigi stund á töfra, fjölkynngi, fóstureyðingar eða ungbarnadráp. Gæt þess að girnast ekki neitt af því sem náunga þínum tilheyrir og ver aldrei sekur um meinsæri, ljúgvitni, rógburð eða illkvittni. Vertu eigi tvíræður, hvorki í hugsun né orði, því tveggja tungu tal er dauðans gildra; orð af þínum vörum skulu ekki vera svikul eða innantómt gjálfur heldur vera þrungin merkingu. Þú skalt hvorki vera gráðugur né hóflaus og þú verður að standast hverja þá freistingu að ganga veg hræsni, meinfýsni eða að sækjast eftir metorðum.

SJÁ:
http://www.vortex.is/catholica/thre.html

28.08.06 @ 17:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það var fróðlegt að sjá þýðingu Reynis. Þá Didache-útgáfu, sem ég er með, frumtextann og ísl. þýðingu sr. Sigurðar H. Guðmundssonar, fann ég ekki, þegar ég ætlaði að grípa til hennar í dag. En hugtakið, sem Reynir notar í þessu sérstaka tilviki, getur ekki talizt algagnsæ þýðing, svo mikið man ég þó úr merkingu frumtextans.

28.08.06 @ 19:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Heiðrum heilagan Ágústínus kirkjuföður, dýrling þessa dags, skarpan, fjöllesinn og djúpsæjan rithöfund og biskup sem mótað hefur Vesturkirkjuna með fjölda rita sinna, málsnilld, skýrleik í hugsun, einurð og staðfestu í vörn kaþólskrar trúar gegn villukennendum maníkea, donatista og pelagiana og útleggingu háleitustu trúarlærdóma, s.s. í riti sínu De Trinitate (um heilaga Þrenningu), jafnt sem í yfirlitsritum sínum um kristna kenningu og trúaratriðin; umfram allt er hann orkubrunnur og hverjum manni indæll, andlegur sálufélagi, jafnvel rúmu einu og hálfu árþúsundi eftir hans dag.

28.08.06 @ 20:01
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og fögnum því, að nú eru Játningar (Confessiones) Ágústínusar komnar út á íslenzku í heild sinni, allar ‘bækurnar’, sem því riti tilheyra, en ekki sleppt þeim ca. þremur eða fjórum síðustu, sem einna ‘kaþólskastar’ þóttu og ekki voru hafðar með í 1. útgáfu verksins á íslenzku. Útgefandi er Hið íslenzka bókmenntafélag, í ritröð Lærdómsrita félagsins.

28.08.06 @ 22:55