« 16. Hið Alhelga Hjarta Jesú – lokaorðSamtal um nótt »

27.10.06

  07:13:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 454 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 27. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lúkas 12. 54-59

Hann sagði og við fólkið: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.' Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.' Og svo fer. Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma? Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé? Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi. Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.“
Í dag heiðrar kirkjan: Bl. Bartholomeus frá Vicenza (um 1200-1271), dóminíkana og biskup á Kýpur. Hugleiðing dagsins: Blessaður Jóhannes páfi XXIII (1881-1963). Úr ræðu við opnunarathöfn Annars Vatíkanþingsins: Að meta tákn tímans: Mikilvægt hlutverk Annars Vatíkanþingsins

Í postullegu embætti voru höfum vér iðulega verið hneykslaðir þegar vér heyrum ummæli ákveðins fólks sem skortir ekki trúarlega ákefð, en brestur dómgreind og yfirsýn hvað áhrærir afstöðu sína. Það sér einungis rústir og hörmungar í núverandi þjóðfélagsaðstæðum. Það hefur til siðs að segja að samtíð vor standi langt að baki fortíðinni. Það hagar sér eins og sagan sem er uppfræðari tímanna hafi ekki neitt fram að færa til að kenna því og að á fyrri kirkjuþingum hafi allt verið fullkomið hvað áhrærir trúarsetningar kristindómsins og frelsi kirkjunnar.

Oss virðist að vér verðum að lýsa því yfir að vér séum ósammála spámönnum ófara sem ætíð boða hörmungar líkt og heimurinn sé kominn að fótum fram.

Í ljósi þess sem á sér stað á vorum dögum þegar þjóðfélagið virðist vera komið að þáttaskilum, er hollara að horfa til hinnar leyndardómsfullu ráðsályktunar Guðs sem nær fram að ganga í rás tímans og verkum manna og yfirleitt andstætt mennskum væntingum þar sem öllu er hagað til af speki og kirkjunni til góðs, jafnvel í þeirri atburðarás sem virðist henni andhverf.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet