« Ritningarlesturinn 28. júlí 2006Ritningarlesturinn 26. júlí 2006 »

27.07.06

  07:13:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 512 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 27. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 13. 10-17

Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?" Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið. Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá. En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra. Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.

Í dag minnist kirkjan: Blessaðs Antonio Lucci. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Tauler (1300-1361), dóminíkani og djúphyggjumaður. Predikun 53: „En sæl eru augu yðar, að þau sjá“

Drottinn sagði: „Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki.“ Allur þessi mannfjöldi þráði að sjá en sá ekki. Þeir þráðu að sjá og héldu fast í eiginn vilja. Illskan hefur skotið rótum í viljanum . . . Vilji okkar hylur hið innra auga okkar rétt eins og augnaleppur kemur í veg fyrir að hið ytra auga sjái eitthvað. Meðan þið haldið í ykkar eigin vilja verðið þið svipt þeirri sælu að sjá með ykkar innra auga. Alla sanna hamingju má rekja til hins sanna frelsis, að við snúum baki við okkar eiginn vilja. Allt sem glæðist í djúpi sannrar auðmýktar . . . Eftir því sem einhver verður minni og auðmjúkari hverfur vilji hans meira í skuggann.

Þegar allt hefur kyrrst sér sálin sína eigin verund og allar eigindir sínar. Hún ber skyn á sjálfa síg sem ímynd þess sem hún kom frá. Þau augu sem skyggnast þetta langt eru sæl sökum þess sem þau sjá. Það sem blasir þá við manninum eru stórmerki allra stórmerkja, það sem er hreint. Einungis að okkur megi auðnast að leggja þennan veg að baki og sjá með þeim hætti að augu okkar verði sæl. Megi Guð hjálpa okkur svo að þetta megi verða!

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet