« Ritningarlesturinn 27. nóvember 2006Um Vinalínu (Vinaleið) hins Alhelga Hjarta Jesú »

26.11.06

  09:38:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 614 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 26. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 18. 33-37

Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“ Jesús svaraði: „Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“ Pílatus svaraði: „Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?“ Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“ Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“

Í dag fagnar kirkjan: Hátíð Konungsins Krists [1]. Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), byskup í Hippo (Norðurafríku), píslarvottur og kirkjufræðari. Hugleiðing 115 um Jóhannesarguðspjallið: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“

Megi allir Gyðingar og heiðingjar leggja við eyru! Hlýðið á, öll konungsríki jarðarinnar! Ég kem ekki í veg fyrir að þið ríkið yfir heiminum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ (Jh 18. 36). Þið skuluð því ekki láta þann tilgangslausa ótta sem greip Heródus þegar honum bárust fréttir af fæðingu minni ríkja yfir ykkur. „Nei,“ segir Frelsarinn, „mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Öll komið þið til konungsríkis sem er ekki af þessum heimi, komið í trú. Megi miskunnarlaus óttinn ekki heltaka ykkur. Það er rétt að þegar Guðsonurinn víkur að Föðurnum segir hann í spádómsorðunum: „Ég hef skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga“ (Sl 2. 6). En þessi Síon og þetta fjall er ekki af þessum heimi.

Og hvað er þetta konungsríki? Það eru þeir sem trúa á hann, þeir sem hann segir við: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Hann vill engu að síður að þeir séu í heiminum og því biður hann Föður sinn: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa“ (Jh 17. 15). Hann sagði ekki: „Ríki mitt er ekki í heiminum“ heldur: „Það er ekki af heiminum.“ Ef konungsríki mitt væri af þessum heimi, þá myndu fylgjendur mínir berjast til að koma í veg fyrir að ég væri framseldur.“

Konungsríki hans er raunverulega á jörðinni allt til enda heimsins þangað til hin góða uppskera hefur gróið meðal illgresisins (Mt 13. 27). Konungsríki hans er ekki héðan vegna þess að hann er förumaður í heiminum. Hann segir við þá sem hann ríkir yfir: „Þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum“ (Jh 15. 19). Þannig voru þeir af þessum heimi áður en konungsríki hans birtist og þeir tilheyrðu „höfðingja þessa heims“ (Jh 12. 3). Allir sem fæddir eru af syndugu sæði Adams eru af þessum heimi. Allir sem endurfæðst hafa í Jesú Kristi eru af konungsríki hans og tilheyra ekki lengur þessum heimi sökum þess að Guð „frelsað oss frá valdi myrkursins og flutti oss inn í ríki síns blessaða Sonar“ (Kól 1. 13).

[1] Basilíka kaþólskra í Landakoti er helguð Konunginum Kristi.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet