« Daglegir ritningarlestrarKaþólska fréttasjáin: Vikan 18. júní til 24. júní 2006 »

26.06.06

  05:25:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 588 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 26. júní 2006

Guðspjall Jesú Krists mánudaginn 26. júní er úr Matteusarguðspjalli 7. 1-5

1 Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. 2 Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. 3 Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 4 Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?' Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. 5 Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Í dag minnist kirkjan: Blessaðs Raymond Lull (1235-?) frá Mallorca,
fransiskana og trúboða.

Hugleiðing dagsins: Doróþeus frá Gaza (um 500-?), munkur í Palestínu,
Bréf 1.

„Þá sérðu glöggt.“

Sumt fólk umbreytir öllu sem það leggur sér til munns í geðillsku, jafnvel þegar hollt fæði á hlut að máli. Ágallinn felst ekki í fæðunni heldur í lunderni þess sem spillir fæðunni. Ef sál okkar er þannig illa öguð verður allt henni til tjóns. Jafnvel nytsömustu hlutir verða henni þannig til tjóns. Ef þú setur örlítið af kryddjurtum í hunangspottinn verður þá ekki sjálft hunangið beiskt á bragðið? Þetta er það sem við gerum. Við látum beiskju okkar berast til annarra og spillum þannig gæðum náunga okkar með því að sýkja hann af geðillsku okkar.

Annað fólk hefur hins vegar lunderni sem umbreytir öllu til góðs, jafnvel slæmri fæðu. Svínin hafa ýmislegt gott til að bera. Þau leggja sér til munns drafið, döðlufræ og úrgang. En þau umbreyta þessi fæði í heilsusamlegt kjötmeti. Ef við temjum okkur þannig góðar venjur og sálarafstöðu verður allt okkur til góðs, jafnvel það sem er það ekki. Í Orðskviðunum er komist svo að orði: „Sá sem er miskunnsamur öðlast miskunn.“ Og á öðrum stað: „Allt verður heimskum manni til tjóns.“

Mér var greint frá bróðir einum sem hafði til siðs að segja þegar hann heimsótti einhvern og sá að klefi hans var í hirðuleysi og óreiðu: „Hversu sæll er ekki þessi bróðir sem hefur öðlast frelsi frá öllu hinu jarðneska og hefur hafið anda sinn til himna með svo ágætum hætti, að hann hefur ekki einu sinni tíma til að taka til í klefa sínum!“ Ef hann fór til annars bróðir og sá að allt var í röð og reglu í klefa hans, þá sagði hann við sjálfan sig: „Klefi þessa bróður er jafn hreinn og sál hans. Klefi hans ber sálarástandi hans vitni!“ Hann sagði aldrei við nokkurn mann: „Þessi er hirðulaus“ eða „þessi er reglumaður.“ Sökum afstöðu hans varð allt honum til góðs. Megi Guð í gæsku sinni einnig gefa okkur gott lunderni svo að allt verði okkur til góðs og við hugsum aldrei illa um náunga okkar. Ef geðillskan stjórnar gerðum okkar og dómum svo að við verðum tortryggnir, skulum við samstundis umbreyta slíku í góðar hugsanir. Ef við sjáum ekki það sem er ámælisvert í fari náunga okkar með Guðs hjálp, glæðir slíkt góðvild.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég birti ritningarlestur dagsins hér í tilefni ummæla breska guðleysingjans á RUV 1 í gærkveldi. Berið afstöðu þessa Oxfordprófessors saman við afstöðu Dr. Francis Collins sem birtist hér á Kaþólsku fréttasjánni 11. til 17 júní s. l. Þar er um einn kunnasta vísndamann samtíðarinnar að ræða, og hann kemst að þveröfugri niðurstöðu hvað áhrærir tilvist Guðs og gildi trúarinnar.

Rétt eins og bróðir Doróþeus frá Gaza orðar svo réttilega má segja: Ef við setjum beiskar kryddjurtir trúleysins út í hungangspott lífs okkar, verður allt hunangið beiskt!“

Enn að nýju á RUV 1 „hrós“ skilið fyrir að úthella trúleysinu yfir þjóðina. Hér er augljóslega ekki lengur um fjölmiðil ALLRA LANDSMANNA að ræða.

26.06.06 @ 05:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Rétt mælir þú, Jón, nema RÚV bæti ráð sitt. Sjálfur gagnrýni ég nefndan þátt í nýrri grein HÉR. – En þakka þér þessa grein þína um viðhorf munksins og lærdóma af því – hún er góð.

26.06.06 @ 12:33
Lárus Viðar Lárusson

Jón Rafn segir í athugasemd sinni að RÚV sé ekki lengur fjölmiðill allra landsmanna því þeir sýna viðtal við trúleysingja. Nú telst ég til landsmanna og er trúlaus og svo er ástatt um fleiri. Einnig búa hér margir sem aðhyllast önnur trúarbrögð heldur en kristni.

Þegar að RÚV sýnir frá messum t.d., þar sem kristinn boðskapur fær að streyma í viðtækin, missa þeir þá titilinn “Fjölmiðill allra landsmanna"? Eða gildir þetta bara þegar þeir sýna sjónarmið sem eru andstæð kristinni trú?

27.06.06 @ 11:42
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það sem verið er að gagnrýna í þessu sambandi, Lárus, er slíkt „drottningarviðtal“ á besta útsendingartíma þar sem RÚV 1 víkur öllu öðru til hliðar sökum þessa „skúpps“ að mati fréttamannsins, eins og þeim er títt að gera þegar fótboltinn er látinn koma í stað almenns fréttatíma. Þar fyrir utan var gagnrýnislaus afstaða fyrirspyrjendans bókstaflega kátbrosleg, eða hin barnsleg hrifning hans sem fór ekki leynt. Slík drottningarviðtöl sæma þjóðhöfðingjum í opinberri heimsókn. Ég leyfi mér að segja að framkoma Kristjáns hafi verið „naive,“ og er ekki einn um það.

Í reynd var árás Dawkins bæði á kristindóminn, Bandaríkjaforseta og bandarísku þjóðina honum til háborinnar skammar. Maðurinn er bersýnilega ofsatrúarguðleysingi.

27.06.06 @ 13:26