« Ritningarlesturinn 27. júlí 2006Ritningarlesturinn 25. júlí 2006 »

26.07.06

  06:33:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 614 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 26. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Matteus 13. 1-9

Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni. Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: „Sáðmaður gekk út að sá, og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan. Hver sem eyru hefur, hann heyri.“
Í dag minnist kirkjan: Heil. Jóakims og Önnu, foreldra hinnar blessuðu Meyjar.Hugleiðing dagsins:Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar § 101-105, 108: „En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það.“ (Mt 13. 23)

KRISTUR - HIÐ EINSTAKA ORÐ HEILAGRAR RITNINGAR

Af gæsku sinni og velvild talar Guð við mennina með mennskum orðum þegar hann opinberar sig þeim: “Því orð Guðs, tjáð með orðum mannanna, eru á allan hátt lík mannlegri tungu líkt og þegar Orð hins eilífa Föður íklæddist holdi mannlegs veikleika og varð manni líkur”. (Vatican II, DV 13)

Í gegnum öll orð Heilagrar Ritningar, talar Guð einungis eitt einstakt Orð, Orð sitt eina, þar sem hann segir allt um sjálfan sig. (Heb 1. 1-3)

Munið að eitt og hið sama Orð Guðs teygir sig allt í gegnum Ritninguna, að það er eitt og sama Orðið sem allir hinir heilögu skrifarar tóku sér í munn þar sem að hann sem í upphafi var Guð með Guði þarf ekki á sérstökum atkvæðum að halda; „því hann er ekki háður tíma.“ (Heil. Ágústínus).

Þetta er ástæða þess að kirkjan hefur ávallt heiðrað Ritninguna líkt og hún heiðrar líkama Drottins. Hún ber stöðugt fram fyrir hina trúuðu brauð lífsins sem tekið er af hina eina borði Orðs Guðs og líkama Krists (DV 21).

Úr Heilagri Ritningu fær kirkjan stöðugt næringu sína og styrk sinn því að hún tekur ekki við henni sem manna orði „heldur sem Guðs orði, - eins og það í sannleika er“ (1Þ 2. 13, sjá DV 24). „Faðirinn sem er á himnum kemur af elsku sinni til fundar við börn sín í hinni helgu bók og talar við þau“. (DV 21).

Guð er höfundur Heilagrar Ritningar. „Það sem Guð hefur opinberað og sem Heilög Ritning geymir og sýnir hefur verið ritað undir innblæstri Heilags Anda“. (DV 11) . . .

Eigi að síður er kristin trú ekki „trúarbrögð bókarinnar“. Kristindómurinn er trúarbrögð „Orðs“ Guðs, orðs sem „ekki er ritað og þögult orð heldur holdi klætt og lifandi Orð“ (Heil. Bernharð). Ef Ritningin á ekki að vera dauður bókstafur, verður Kristur, hið eilífa Orð hins lifanda Guðs, fyrir Heilagan Anda, að „ljúka upp huga okkar til að skilja Ritninguna.“ (Lk 24. 25)

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet