« Ritningarlesturinn 26. júlí 2006Ritningarlesturinn 24. júlí 2006 »

25.07.06

  06:52:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 612 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 25. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 20. 20-28

Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar. Hann spyr hana: "Hvað viltu?" Hún segir: "Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri." Jesús svarar: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?" Þeir segja við hann: "Það getum við." Hann segir við þá: "Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum." Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

Í dag minnist kirkjan: Heil. Jakobs hins meiri. Hugleiðing dagsins –Orígenes (um 185-253), prestur og guðfræðingur – Hugvekja um Sköpunarsöguna 1, 7: „Heil. Jakob, vottur ljóssins“ (sjá Mk 9. 2)

Það eru ekki allir sem sjá Krist sem hann uppljómar með sama hætti, heldur uppljómast hver og einn með hliðsjón af getu sinni til að meðtaka ljósið. Líkamleg augu okkar meðtaka ekki ávallt sama ljósmagnið frá sólinni. Ef þið gangið upp á háan stað og horfið til hennar úr þessari hæð berið þið betur skyn á ljóma hennar og hita. Með sama hætti ber hugur okkur betur skyn á ljóma ljóss Krists eftir því sem hann rís hærra og þannig mun hann umvefjast með fyllri hætti í dýrðarljóma þess. Þetta sagði Drottinn sjálfur fyrir munn spámannanna: „Snúið yður til mín – segir Drottinn allsherjar – þá mun ég snúa mér til yðar“ (Sk 1. 3).

Við snúum okkur ekki öll til hans með sama hætti, heldur gerir hver og einn það með sínum hætti (sjá Mt 25. 14). Annað hvort komum við til hans í mannmergðinni og nærumst á dæmisögum svo að við „örmögnumst ekki á leiðinni“ (Mk 8. 3). Eða þá að við dveljum sífellt við fætur hans og hlustum á orð hans, án þess að hafa of miklar áhyggjur af störfum okkar (sjá Lk 10. 38) . . . Vissulega munu þeir sem snúa sér til hans með þessum hætti njóta fyllri uppljómunar.

En ef við gerum postulana að fyrirmynd okkar hverfum við aldrei frá honum, heldur erum „stöðugir með honum í freistingunum“ (sjá Lk 22. 28) og þá útskýrir hann fyrir okkur í leynum það sem hann greindi fjöldanum frá og þá mun hann uppljóma okkur með enn fyllri hætti (sjá Mt 13. 11). Ef einhver verður loks á vegi hans sem er þess umkominn að fara upp á fjallið með honum, eins og þeir Pétur, Jakob og Jóhannes, þá uppljómast viðkomandi ekki einungis í ljósi Krists, heldur hlustar á raust Föðurins.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet