« Ritningarlesturinn 25. október 2006Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú – Saga og iðkun »

24.10.06

  08:50:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 428 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 24. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 35-38

Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga, og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Antonio Mario Claret (1897-1870), „andlegan föður Kúbu.“ Hugleiðing dagsins: Heil. Bernard frá Clairvaux, (1091-1153), sistersíani og kirkjufræðari. Hugleiðing 17 um Ljóðaljóðin: Að vaka í Heilögum Anda

Við verðum að vaka þrotlaust af árvekni og umhyggju yfir hjálpræðisverkinu sem fer fram í okkar innstu verund af leikni og ljúfleika í listfengi Heilags Anda. Ef við viljum ekki verða sviptir ríkidæmi náðarinnar skulum við gæta þess að glata aldrei sjónum af þessum himneska Leiðsögumanni sem getur uppfrætt okkur um allt hverfi án þess að við gerum okkur þetta ljóst. Við skulum aldrei láta hann koma án þess að vera undirbúnir, heldur ætíð með ásjónum sem horfa til hæða og opnum hjörtum til að meðtaka ríkidæmi Drottins. Við skulum gæta þess að hann komi til okkar eins og fólks sem bíður eftir að húsbóndi þeirra komi heim úr brúðkaupsveislu vegna þess að hann kemur aldrei tómhentur frá hinu himneska gnægtaborði.

Þannig verðum við að halda vöku okkar, jafnvel á sérhverri stundu, vegna þess að við vitum ekki hvenær hann kemur eða fer aftur. Heilagur Andi kemur og fer (Jh 3. 8) og ef við fáum aðeins staðist með hans styrk, þá felur það í sér að við hrösum án hans. Já, fallið, en ekki til tjóns vegna þess að Drottinn styður okkur með hendi sinni. Þeir sem verða að andlegum mönnum eða Heilagur Andi hefur í hyggju að gera að andlegum mönnum hætta aldrei að skynja slíka breytingu. Hann vitjar þeirra á hverjum morgni og prófar á sérhverju andartaki.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

2 athugasemdir

Athugasemd from: Vigfús Ingvar Ingvarsson
Vigfús Ingvar Ingvarsson

Komdu sæll Jón Rafn
Þetta er nú ekki athugasemd frá mér heldur prívat fyrirspurn til þín. Ég er sóknarprestur á Egilsstöðum og sameiginlegur kunningi, Jón Valur Jensson, benti mér á þig varðandi þýðingu orðanna consolation og desolation eins og þau eru notuð í andlegu leiðsagnarhefðinni sem byggir á Andlegum ævingum Ignatiusar Loyola. Þ.e. hvort einhver hefð sé til hérlendis varðandi þýðingu þessara hugtaka. Með kærri kveðju. Vigfús Ingvar Laugavöllum 19, Egst.

24.10.06 @ 16:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Blessaður Vigfús,

Ég tek fram að ég er ekki vel heima í verkum Ignatíusar Loyola. Mitt sérsvið er annars vegar hin karmelska guðfræði og hins vegar guðfræði kirkjufeðranna og sú gríska og rússneska. Regla mín er sprottin af sömu rótum, það er að segja reglurnar voru samdar af Alfreð patríarka af Jerúsalem.

Hvað varðar orðið „consolation“ eða huggun er ávallt fjallað um það með neikvæðum og jákvæðum hætti í dulúð Karmels. Sú fyrri er nefnd „contendos“ á spænsku og hún er rakin til hins náttúrlega eðlis. Ég þýði orðið ávallt sem fullnægju, að fullnægja hinu náttúrlega eðli. Þetta er afar varasamt í bænalífinu og leiðir til andlegrar græðgi þegar sálin verur svo að segja að mathák fullnægjunnar. Síðari merkingin eða sú jákvæða er nefnd „gustos.“ Gustos er andleg náðarhrif og yfirleitt þýði ég orðið sem andlegan ljúfleika eða sætleika.

Hvað áhrærir orðið „desolation“ er mér sökum ókunnugleika ekki ljóst í hvaða samhengi Ignatíus notar orðið. Í hinni karmelsku guðfræði er talað um „aniquilar“ að uppræta og um upprætinguna, það er að segja að játa fátækt eiginn anda til að öðlast opinleika fyrir fyllri innblæstri náðarinnar. Á spænsku þýðir nafnorðið „desolador“ eyðandi eða tortímandi og sögnin „desolar“ að eyða eða að leggja í auðn.

Kieran Kavanough grípur tvisvar til orðsins „desolation“ í enskri þýðingu sinni á Hinni myrku nótt Jóhannesar af Krossi og þá vísar það til upprætingarinnar, en Jóhannes notar orðið ekki með þessum hætti, talar um „desamparar.“ (að hafna, snúa baki við). Hér nota ég orðið upprætingu í minni þýðingu á Nóttinni.

25.10.06 @ 08:36