« Ritningarlesturinn 25. júlí 2006Ritningarlesturinn 23. júlí 2006 »

24.07.06

  06:14:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 439 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 24. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 12. 38-42


Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn." Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.


Í dag minnist kirkjan: Heil. John Boste, George Swallowells, John Ingrams og bless. Louise frá Savoy. Hugleiðing dagsins:

Heil. Pétur Chrysologus (um 406-450), biskup í Ravenna og kirkjufræðari. 3. prédikun: „Hér er meira en Jónas!“


Það var Jónas sjálfur sem vildi að sér yrði kastað í sjóinn: „Takið mig og kastið mér í sjóinn“ (Jón 1. 12). Þetta skírskotar til písla sjálfs Drottins Jesú sem hann tók fúslega á sínar herðar. Hvers vegna biðu sjómennirnir þar til þeim barst þessi beiðni? Það er sökum þess að þegar hjálpræði allra grundvallast krefst dauða eins manns, þá krefst það þess að sá hinn sami sé fús til þess.


Þessi frásögn er forgildi lífs sjálfs Drottins. Þeir bíða ákvörðunar þess sem er fús að leggja líf sitt í sölurnar þannig að þessi dauði væri ekki knýjandi nauðsyn, heldur eigin viljaákvörðun: „Ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér“ (Jh 10. 17-18), segir Drottinn. Þegar Jesús „gaf upp andann“ (Jh 19. 30), þá var það ekki sökum þess að lífið væri að renna honum úr greipum.


Sá sem heldur á sálum allra manna í hendi sinni gat ekki glatað sinni eigin sál. Spámaðurinn sagði: „Líf mitt er ætíð í þinni hendi“ (Sl 119. 109). Og á öðrum stað segir hann: „Í þínar hendur fel ég anda minn“ (Sl 31. 6; Lk 23. 46).


© Bræðralag kristinna trúarkenninga


SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þótt það sé ekki í neinu framhaldi af þessari útleggingu biskupsins helga í Ravenna, þá langar mig að undirstrika þessi orð úr guðspjallinu: “Hér er meira en Jónas,” sagði Jesús, “og hér er meira en Salómon.”

Hér er mikið sagt. Jónas var spámaður Guðs. Salómon var einn mesti spekingur Gamla testamentisins (sjá Speki Salomós í GT). Þótt ummæli Jesú séu sett fram í svo hlutlægu, ópersónulegu formi sem verða má, jafnvel svo, að inntakið getur farið fram hjá fljótfærum Íslendingi sem rennir augum yfir blöð Nýja testamentisins, þá er alveg á hreinu, að þeir fræðimenn og farísear, sem þarna hlýddu á Jesúm, hafa verið gapandi af undrun yfir inntaki orða hans; líkast til hafa flestir þeirra hneykslazt vegna orða hans (þótt guðspjallið geti ekki um viðbrögð þeirra).

En Jesús segir meira en þetta. Nínívemenn iðruðust við predikun Jónasar, en kynslóð fræðimannanna og faríseanna iðraðist ekki við predikun Jesú, sem þó var meiri en Jónas; og drottning Suðurlanda kom að heyra vizku Salómons (þ.e.a.s.: jafnvel útlendingur úr fjarlægu landi setti ekki fyrir sig langferð til að njóta vizku hans), en helztu fræðimenn og farísear meðal landsmanna Jesú vanvirtu hann og allan hans heilaga boðskap.

Þriðja stigið í inntaki þessa magnaða texta er svo spásögn Jesú um framtíðardóminn: “Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana …,” og “Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana” – og hvers vegna? Jú, vegna þess að sú kynslóð hafnaði predikun Jesú. Svo afgerandi mikilvæg er siðferðisskyldan að heyra Guðs orð og varðveita það. En “Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn,” þá sem nú. Okkar eigin kynslóð – sem þýðir: hvert og eitt okkar – hefur hins vegar þá siðferðisskyldu að skoða boðskap Jesú í kjölinn, rannsaka guðspjöllin rækilega og ærlega, í stað þess að þykjast þess umkomin að dæma hann og kristindóminn út frá yfirborðsþekkingu sem blandin er öllum þeim fáfengilegu hviksögum sem menn upplifa á lífsleiðinni frá aðilum sem þrátt fyrir ærna vanþekkingu sletta ýmsu út úr sér, í fullkomnu ábyrgðarleysi, um Krist, kenningu hans og kirkju.

24.07.06 @ 13:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er holl íhugun, Jón Valur, okkur öllum til alvarlegrar áminningar. Öll verðum við að standa frammi fyrir hinum hinsta dómi og þá er ekki nóg að bera fyrir sig „ófullkomin mennsk lög“ sér til réttlætingar!

Að hugsa sér að hinn heilagi biskup í Ravenna skuli enn í dag snerta svo við hjörtum manna og tala inn í samtíma okkar á Íslandi!

24.07.06 @ 14:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég lagaði smávegis texta minn.

24.07.06 @ 21:40
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og hefði þó mátt gera betur (var reyndar á hlaupum í gær).

Krafan um “tákn” var krafa um kraftaverk. En eins og í Jóhannesar-guðspjalli, þegar þeir skriftlærðu kröfðu Krist um kraftaverk og hann svaraði þessu til: “Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir á þá!” – á sama hátt vísar hann hér á ritningarnar (Gamla testamentið). Enginn, hvorki þá né nú, verður afsakaður á efsta degi með því, að hann hafi ekki fengið beinlínis kraftaverk frá Guði til að sýna honum og sanna, að kristindómurinn sé réttur. Okkur er ætlað að rannsaka ritningarnar.

Kristin trú gerir í raun hið ýtrasta mögulega tilkall til æðstu og háleitustu sanninda, eins og þau verða þekkt hér á jörðu. Það er því fáfengileg hugsun, eins og hún framast getur orðið, að hafna þeim boðskap með svo léttvægum hætti að skoða ekki af alvöru [a.m.k. hugsanlegan] trúverðugleika Krists í þeim gögnum, sem vitnisberar hans skildu eftir – gögnum sem ströng gagnrýni hefur tímasett á hans eigin öld, flest löngu fyrir lok hennar, margfalt nær söguatburðunum heldur en t.d. Landnámabók og jafnvel Íslendingabók okkar eigin þjóðar, og tökum við þó talsvert mikið mark á þeim ritum.

Það ætti að vera kappsmál hvers prests að gera hvert einasta fermingarbarn meðvitað um þessi grundvallaratriði, þ.e.a.s. að glæða hjá þeim þann ásetning að skoða í alvöru “hið kristna tilkall” til sannleika og trúverðugleika – að gefa þeim aðstöðu til að vega og meta sögulegt heimildagildi kristinna frumrita, svo að þau geti gert eigin athugun á því, hvort guðspjöllin séu nógu nálægt Jesú sjálfum til að geta komið til greina sem áreiðanleg rit, og skoðað það einnig í kjölinn (með lestri a.m.k. tveggja guðspjalla á því fermingarári), hvað Jesús segir um sjálfan sig, hver hann segist vera. Vissulega þurfa þau leiðsögn í þeirri rannsókn (rétt eins og Eþíópíumaðurinn, sem Filippus leiðbeindi á veginum, Post. 8.27–39), því að svo víða verður að skilja NT með bakgrunninn úr GT í huga. Tilgangur slíkrar rannsóknar undir leiðsögn prests þarf að vera sá, að fermingar-unglingarnir geti komist að raun um sanngildi kristinnar trúar eður ei. Páfagauka-lærdómur ristir grunnt, en þessi leið er leið lærdóms og þroska, gagnrýnnar hugsunar og uppgötvunar.

25.07.06 @ 13:29