« Um Drottins trúu múrverksmenn, fríhyggjumenn og frímúraraRitningarlesturinn 23. ágúst 2006 »

24.08.06

  06:39:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 465 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 24. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jh 1. 45-51

Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“ Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“ Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.“ Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“ Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig.“ Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“ Jesús spyr hann: „Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu'? Þú munt sjá það, sem þessu er meira.“ Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Bartólómeus, einn hinna tólf. Hugleiðing dagsins: Philoxenes frá Mabbug (? – um 523), biskup í Sýrlandi. Hugvekja 4, 76-79: „Kom þú og sjá.“

Jesús endurtók þá köllun sem hann beindi til Abrahams við postulana heilögu. Og trú þeirra var sú sama og hjá Abraham. Rétt eins og Abraham brást við jafnskjótt og hann var kallaður (1M 12), þá snéru postularnir baki við öllu þegar þeir heyrðu ákall Jesú. . . Þeir urðu ekki að lærisveinum hans vegna mikillar uppfræðslu, heldur einungis með því að heyra ákall trúarinnar. Þar sem þessi trú var lifandi jafnskjótt og hún heyrði hina lifandi raust, þá fylgdu þeir lífinu. Þeir hlupu samstundis á eftir honum án þess að hika. Af þessu sjáum við að þeir voru lærisveinar í hjarta sínu jafnvel áður en þeir voru kallaðir.

Þannig starfar trúin þegar hún er einföld. Hún nýtur ekki uppfræðslu með röksemdafærslum. Rétt eins og heilbrigt og hreint auga meðtekur geisla sólarinnar án þess að brjóta slíkt til mergjar eða aðhafast neitt og skynjar birtuna jafnskjótt og það líkst upp, gegnir hið sama um þá sem hafa heilbrigða og hreina trú til að bera: Þeir þekkja raust Guðs jafnskjótt og hún berst þeim til eyrna. Ljós þessa Orðs glæðist í þeim sjálfum og þeir hlaupa til þess fullir gleði og meðtaka það, eins og Drottinn sagði í guðspjallinu: „Mínir sauðir heyra raust mína. . . og þeir fylgja mér“ (Jh 10. 27).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet