« Í Bænaháskóla GuðsmóðurinnarBænin fyrir öllum íbúum jarðarinnar »

23.09.06

  08:04:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 659 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 23. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 8. 4-15

Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt." Að svo mæltu hrópaði hann: „Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri." En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.' En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Pio frá Petrelcina (Padre Pio). [1] Hugleiðing dagsins: Heil. Gregor páfi hinn mikli (540-604), kirkjufræðari. Hugvekja um fagnaðarerindið 1, 15: Að bera ávexti stöðuglyndis (þolgæðisins)

Verið árvökul svo að Orðið sem þið hafið meðtekið taki að hljóma í djúpi hjartans og festa þar rætur. Gætið þess að sæðið falli ekki á götu óttans svo að illir andar og fjarlægi það ekki úr endurminningu ykkar. Gætið þess að sæði það sem þið meðtakið og glæðir góð verk skorti ekki rætur stöðuglyndir. Margir eru þeir sem fagna þegar þeir heyra orðið og ákveða að snúa sér að góðum verkum. En vart hafa freistingarnar tekið að herja á þá þegar þeir hopa undan og hverfa frá verki sínu. Þannig skortir jarðveg klapparinnar vökvun og hveitisæðið ber ekki ávexti stöðuglyndis.

En hin góða jörð ber ávexti sökum stöðuglyndis síns. Með þessu ber okkur að skilja að góðverk okkar geta orðið árangursrík ef við stöndumst freistingar náunga okkar. Auk þess verða freistingarnar þess meiri eftir því sem fullkomleikinn stendur okkur nær. Þegar sál okkar hefur í eitt skiptið fyrir öll hafnað elsku þessa heims fer fjandskapur heimsins vaxandi. Af þessum sökum sjáum við marga strita undir „erfiði og þungum byrðum“ (Mt 11. 28), þrátt fyrir að verk þeirra séu góð . . . En samkvæmt orðum Drottins „bera þau ávöxt sökum stöðuglyndis þeirra“ með því að standast þolraunir freistinganna af auðmýkt og það í svo ríkum mæli að þeim verður boðið að ganga inn í hinn himneska frið.

[1]. Sá má rit um Padre Pio á Vefrit Karmels: Padre Pio, presturinn heilagi, eftir Jim Gallagher: TENGILL: http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Padre%20Pio/Padre%20Pio.html

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet