« 13. Bænaband hins Alhelga Hjarta JesúUm sköpunarmátt þjáninganna »

23.10.06

  07:17:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 550 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 23. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 13-21

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.' Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.' En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?' Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil Jóhannes frá Capistrano, prest (1386-1456). Hugleiðing: Blessuð Teresa frá Kalkútta (1910-1997), stofnandi Kærleikssystranna. Einföld braut: „Hvað á ég að gjöra?“

Öll viljum við njóta hamingju og friðar. Til þess erum við sköpuð og við getum einungis öðlast hamingju og frið með því að elska Guð. Það færir okkur hamingju og frið að elska hann. Fjölmargir, einkum á Vesturlöndum, telja að líf í munaði geri manninn hamingjusaman. Ég tel hins vegar að það sé erfiðara að njóta hamingju þegar einhver er ríkur vegna þess að þá snýst allt um að afla fjármuna og þegar við liggjum á því hverfur Guð okkur sjónum. Ef Guð hefur engu að síður gert þig auðugan, notaðu þá auðæfi þín til að þjóna honum: Hjálpaðu öðrum, hjálpaðu hinum snauðu, skapaðu störf og feldu öðrum verk á hendur. Sóaðu auðæfum þínum ekki í einskisverða hluti. Þegar við eigum hús, njótum virðingar, frelsis, góðrar heilsu og alls annars sem Guð hefur fært okkur í hendur, gerir hann það til þess að aðrir sem eru ekki eins gæfusamir fái notið þess.

Jesús sagði: „Það allt, sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Mt 25. 40). Þar af leiðandi felst allt það sem hryggir mig í því að auðsýna Drottni vanvirðingu með eigingirni eða sökum skorts á elsku í garð annarra eða beita einhvern misrétti. Með því að særa hina snauðu, þegar við særum hvort annað, þá særum við Guð.

Það er í verkahring Guðs að gefa og taka (Job 1. 21) og því skuluð þið deila því með öðrum sem þið hafið að lífinu meðtöldu.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet