« Ritningarlesturinn 24. ágúst 2006Ritningarlesturinn 22. ágúst 2006 »

23.08.06

  07:23:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 614 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 23. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt. 20. 1-16

Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.' Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?' Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.' Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.' Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.' Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.' Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?' Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Rósu frá Lima í Perú (1586-1618), vendardýrling Perú, Ameríkanna og Filippseyjanna. Hugleiðing dagsins: Heil Jóhannes Chrysostomos (345-407), biskup í Antiokkíu og síðar í Miklagarði, kirkjufræðari. Hugvekja um heil. Matteus, 64: „Farið þér einnig í víngarðinn.“

Augljóst er að þessari dæmisögu er bæði beint til fólks sem lifað hefur dyggðugu líferni frá æsku og þess sem tók að gera það á gamals aldri. Því fyrra til að vernda það gegn stærilætinu og til að álasa ekki því fólki sem kom á elleftu stundu og til að leiða síðari hópnum fyrir sjónir, að það geti vænst sömu launa á skömmum tíma. Frelsarinn hafði rétt lokið við að segja að fólk yrði að segja skilið við auðæfi sín og ekki meta efnisleg gæði mikils, dyggð, sem krefst mikils hugrekkis. Til þess er krafist æskuþreks ungra sálna. Þannig endurglæðir Drottinn eld elskunnar, styrkir hana tilfinningalega og sýnir fram á að þeir sem komu síðastir meðtaka öll laun hin daglega erfiðis.

Allar dæmisögur Krists, um meyjarnar, fiskinetið, þyrnana og tréð sem ekki ber ávöxt, hvetja okkur til að sýna dyggðir okkar í verki. Hann talar ekki mikið um trúarsetningar vegna þess að þær krefjast ekki mikils erfiðis. En hann víkur iðulega að lífinu. Eða réttara sagt hann talar um það í sífellu vegna þess að lífið er stöðug barátta og því um látlaust erfiði að ræða.

© Bræðralag kristinna trúarsetninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet