« Um sköpunarmátt þjáningannaRitningarlesturinn 21. október 2006 »

22.10.06

  08:16:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 703 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 22. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 10. 35-45

Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Pétur frá Alcantara (1499-1562), spænskur ögunarlífsmaður og skriftafaðir Teresu frá Avíla. Hugleiðing dagsins: Heil. Tómas frá Akvínó (1225-1274), guðfræðingur í reglu Dóminíkana og kirkjufræðari. Um postullega Trúarjátningu (Collationes In Symbolum apostolorum, art. 4 § 64.70.72-76): „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, verði þjónn yðar.“

Hvaða nauðsyn bar til þess að Guðsonurinn þjáðist fyrir okkur? Þörfin var aðkallandi og hana má rekja til tveggja orsaka. Í fyrsta lagi voru píslir hans friðþæging vegna syndarinnar og í öðru lagi til að gefa okkur fordæmi. Af þessu má sjá að áhrif písla Krists fólu í sér græðslu sökum syndarinnar. En þær eru okkur ekki síður mikilvægar sem fordæmi. Ef þið þarfnist þannig fordæmis í kærleika, þá hefur „Enginn meiri kærleika en þann, að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15. 13). Ef þið leitið fordæmis í þolgæði, þá finnið þið það í sinni háleitustu mynd á krossinum. Kristur leið miklar píslir á krossinum og allt af miklu þolgæði vegna þess að „hann hótaði eigi þegar hann leið“ (1Pt 2. 23), „eins og lamb, sem leitt er til slátrunar og lauk ekki upp munni sínum“ (Jes 53. 7). „Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóður á krossi og mat smán einskis“ (Heb 12. 1-2).

Ef þið þarfnist fordæmis í auðmýkt, horfið þá til hins krossfesta. Þrátt fyrir að vera Guð kaus hann að láta Pontíus Pílatus dæma sig til dauða á krossi. Ef þið leitið fordæmis í hlýðni, líkið þá eftir honum sem var Föðurnum hlýðinn allt til dauða (Fl 2. 8). „Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu“ (Rm 5. 19). Ef þið æskið fordæmis hvað varðar fyrirlitningu á jarðneskum hlutum, líkið þá eftir „Konungi konunganna og Drottinn drottna“ (Opb 19. 16), en „í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir“ (Kol 2. 3). Á krosstrénu var hann nakinn, hæddur og menn hræktu á hann, sundurkraminn, krýndur þyrnikórónu og að lokum gefin edikssýra að drekka.

© Bræðralag kristinni trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet