« Ritningarlesturinn 23. nóvember 2006Ritningarlesturinn 21. nóvember 2006 »

22.11.06

  09:18:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 870 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 22. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 19. 11-28

Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast. Hann sagði: „Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur. Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.' En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.' Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt. Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.' Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.' Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.' Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.' Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki, því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.' Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki. Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.' Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.' En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.' Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér.“ Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Cecilíu (þriðja öld). Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II. Hugvekja flutt fyrir verkamenn í Lúxemborg í maí 1985: „Verið frjósöm:” Mannanna verk og Guðsríkið“

Þegar Guð skapaði mannkynið, karlinn og konuna, sagði hann: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina“ (1M 1. 28), það er að segja fyrsta boð Guðs lýtur að tilhögun hins skapaða. Þannig eru verk mannanna í samhljóman við vilja Guðs. Þegar við segjum: „Verði þinn vilji,“ þá skulum við láta þessi orð um vinnuna fylgja með sem uppfylla sérhvern dag lífs okkar. Við gerum okkur þá staðreynd ljósa að við erum samstíga Skapara okkar þegar verk okkar og mennsk samskipti eru þrungin frumkvæði, hugrekki, trausti og samstöðu sem endurljóma í hinni guðdómlegu líkingu eins og svo fjölmargt annað . . .

Skaparinn veitti manninum mátt til að gera jörðina sér undirgefna. Þannig biður Guð hann um að hafa stjórn á því sviði sem honum hefur verið falið að stjórna með vinnu sinni og grípa til allra hæfileika sinna til að þroska sinn eiginn persónuleika og allt samfélagið með jákvæðum hætti. Með vinnu sinni hlýðnast einstaklingurinn Guði og bregst við því trausti sem Guð auðsýnir honum. Þetta er ekki fjarri bónarbæninni í Faðirvorinu: „Komi þitt ríki.“

Maðurinn bregst við með þeim hætti að fyrirhugun Guðs nái fram að ganga þegar hann gerir sér ljóst að hann hefur verið skapaður í líkingu Guðs og hefur þannig þegið styrk sinn, vit og hæfileika frá Guði til að skapa samfélag lífsins sökum óeigingjarnrar elsku sinnar á bræðrum sínum og systrum. Allt það sem er jákvætt og gott í lífi mannsins þróast þannig og rennur saman við hið sanna takmark hans í Guðsríkinu. Þið völduð ykkur góð einkunnarorð: „Guðsríkið, hið mennska líf“ vegna þess að takmark Guðs og mannsins renna í einn og sama farveg. Heimurinn þróast í átt til Guðsríkisins sökum náðargjafa Guðs sem gera alla mennska starfsgleði mögulega. Eða með öðrum orðum: Að biðja um að Guðsríkið komi er að beina allri sinni verund til þessa veruleika sem er hinsta takmark mannkynsins.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KRMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet