« Ritningarlesturinn 23. júlí 2006Glæsileg biskupsmessa í Skálholti »

22.07.06

  07:56:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 847 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 22. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jóhannesi 20. 1-2, 11-18

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“ Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“ Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.“ Jesús segir við hana: „María!“ Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.) Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til Föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til Föður míns og Föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.'“ María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

Í dag minnist kirkjan: Heil. Maríu Magdalenu. Hugleiðing dagsins, Heil. Rómanos hinn hljómelski (?-um 560), sálmaskáld: María Magdalena, postuli postulana.

Samkvæmt frásögn Jóhannesar guðfræðings sendu konurnar sem komu með smyrslin Maríu Magdalenu á undan sér til grafarinnar. Það var myrkur, en elskan lýsti henni. Þannig sá hún steininn stóra sem velt hafði verið úr innganginum að gröfinni og hún snéri til baka og sagði: „Lærisveinar, vitið þið hvað ég sá? Steinninn er ekki lengur fyrir gröfinni. Hafa þeir ef til vill flutt Drottinn minn burt? Þarna eru engir varðmenn sýnilegir, þeir eru flúnir. Hefur hann ef til vill risið upp, hann sem færir föllnu mannkyni upprisuna?“ . . .

Hjarta þess sem sér allt varð snortið þegar hann sá Maríu Magdalenu yfirbugaða af ekka og harmi . . . Sá sem reynir nýrun og hjartað vissi að María þekkti raust hans kallaði á sauð sinn, hann, hinn sanni Hirðir: „María!,“ sagði hann og samstundis þekkti hún raust hans: „Þetta er í raun og veru Hirðir minn sem er að kalla á mig, þannig að héðan í frá geti hann talið mig til hinna níutíu og níu sauða sinna. Mér er ljóst hver það er sem er að kalla á mig. Þetta er Drottinn minn, hann sem færir föllnu mannkyni upprisuna“ . . .

Drottinn sagði við hana: „Kona! Megi munnur þinn héðan í frá kunngera þessi stórmerki og útskýra fyrir börnum Konungsríkisins sem bíða eftir mér, hinum Lifandi, að þau vakni af svefni. María, flýttu þér og kallaðu lærisveina mína saman. Vektu þá alla sem af svefni svo að þeir komi til mín með logandi kyndlum. Farðu og segðu við þá: Brúðguminn er vaknaður af svefni og kominn út úr gröf sinni. Postular! Verið ekki harmþrungnir vegna þess að sá sem færir föllnu mannkyni upprisuna hefur vaknað af svefni . . .“

„Sorg mín snérist í fögnuð á einu andartaki og allt er mér nú til gleði og yndis. Ég hika ekki við að segja: Ég hef þegið sömu dýrðina og Móses. Já, ég hef séð, ekki á fjallinu heldur í gröfinni, ekki hulið skýinu heldur í líkama mínum. Ég hef séð Herra hinna ólíkömnuðu sköpunar og skýsins, hann sem er, var og mun koma. Það er hann sem sagði við mig: Flýttu þér, María, farðu og segðu þeim sem elska mig að ég sé upprisinn. Berðu niðjum Nóa þetta fagnaðarerindi, rétt eins og dúfan bar þeim olífuviðargreinina (1M 8. 11). Segðu þeim að dauðinn hefur verið lagður að velli og að sá sem ber föllnu mannkyni upprisuna er risinn upp úr gröf sinni.“

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet