« Ritningarlesturinn 23. ágúst 2006Um Kristselskuna »

22.08.06

  08:39:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 662 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 22. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 19. 23-30

En Jesús sagði við lærisveina sína: „Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.“ Þá sagði Pétur við hann: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?“ Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
Í dag heiðrar kirkjan: Maríu Drottningu himnanna. Hugleiðing dagsins: Heil. Íreneus frá Lyon (um 130 til um 208), biskup, guðfræðingur og píslarvottur. Gegn villutrú, IV. 14, 1: „Komið og fylgið mér“

Abraham varð að vini Guðs vegna þess að hann hlýðnaðist Orði Guðs, köllun Guðs, samstundis og fúslega sökum réttlætis síns (Jk 2. 23). Orð Guðs sem var fullkomið frá öndverðu ávann sér ekki vináttu Abrahams sjálfu sér til handa sökum skorts. „Áður en Abraham fæddist, er ég“ (Jh 8. 58). Ástæðan var sú að sá sem er algæskan sjálf gæti gefið Abraham eilíft líf. . . Það var heldur ekki sökum þess að Guð þarfnaðist mannsins að hann skapaði Adam, heldur til að eiga einhvern sem hann gæti veitt blessun sína.

Það var heldur ekki sökum þess að hann þarfnaðist þjónustu okkar sem hann bauð okkur að fylgja sér, heldur til að veita okkur hjálpræðið vegna þess að þegar við fylgjum Drottni er það til að öðlast hlutdeild í hjálpræðinu, rétt eins og við öðlumst hlutdeild í ljósinu með því að fylgja því eftir. Þegar fólk dvelur í ljósinu þá er það ekki það sem upplýsir ljósið og fær það til að skína, heldur uppljómast það og tekur að skína í því. . . Guð veitir þeim sem þjóna honum blessun sína vegna þess að þeir þjóna honum og þeim sem fylgja honum blessun vegna þess að þeir fylgja honum. En hann öðlast ekkert úr þeirra hendi vegna þess að hann er fullkominn og þarfnast einskis.

Ef Guð sækist eftir þjónustu mannsins er það sökum þess að sá sem er gæskuríkur og miskunnsamur getur veitt þeim blessun sem eru þolgóðir í þjónustunni við hann. Þrátt fyrir að Guð þarfnist einskis, þá þarfnast maðurinn samfélagsins við Guð. Vegsemd mannsins felst í því að standast í þjónustunni við Guð. Það er af þessum ástæðum sem Drottinn sagði við lærisveina sína: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður“ (Jh 15. 16). Og með þessu sýnir hann fram á að sökum þess að þeir fylgdu Guðsyninum, gerði hann þá dýrlega: „Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína (og ég þeirra dýrð)“ (Jh 17. 24).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Einn hinna heilögu feðra komst svo að orði:

Við skulum íhuga og fræðast um það hvernig við getum gert Guð dýrlegan. Eina leiðin til að gera hann dýrlegan er með þeirri dýrð sem Sonurinn gerði hann dýrlegan. En með því sem Sonurinn gerði Föðurinn dýrlegan gerði Faðirinn Son­inn dýrlegan. Við skulum því leitast við að gera það sem Sonurinn gerði til að gera okkar himneska Föður dýrlegan, eins og honum þóknaðist að kalla sjálfan sig, og vegsamast sjálfir af honum í dýrð Sonarins sem Sonurinn hafði hjá honum, áður en heimurinn varð til (Jh 17. 5). Þetta er krossinn – að deyja heiminum, að líða þjáningar, freistingar og aðrar píslir Krists. Með því að bera þennan kross af fullkomnu þolgæði öðlumst við hlutdeild í píslum Krists og gerum þannig Guð Föður dýrlegan sem synir hans í náðinni sem samarfar Krists. (Símon nýguðfræðingur, Hagnýt og guðfræðileg fyrirmæli 113).

22.08.06 @ 08:49