« Um frið Krists og fjórverutáknið„En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.“ »

21.09.06

  07:40:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 624 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 21. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 9. 9-13

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum. Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?" Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.' Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Matteus guðspjallamann. Hugleiðing dagsins: Íreneus frá Lyon (um 130-208), biskup og píslarvottur. Gegn villutrú c. Bók III. 11, 8-9: Heilagur Matteus, einn guðspjallamannanna fjögurra

Það er ekki hugsanlegt að guðspjöllin gætu verið fleiri eða færri en þau eru. Höfuðáttir þess heims sem við lifum í eru fjórar og höfuðvindáttirnar eru fjórar og kirkjan dreifist um alla heimsbyggðina og „stólpi hennar og grundvöllur“ (1Tm 3. 15) er fagnaðarerindið og Andi lífsins. Því er vel við hæfi að stólpar hennar séu fjórir sem anda frá sér ódauðleika til allra átta og glæði að nýju líf með mönnunum. Orðið, Skapari allra hluta sem ríkir uppi yfir kerúbunum og er grundvöllur alls (sjá Sl 80. 2 og Heb 1. 3) og opinberaðist mönnunum hefur fært okkur fagnaðarerindið í hendur í fjórum greinum sem njörvaðar eru saman í einum Anda. Þegar Davíð víkur að því hvernig hann birtist kemst hann svo að orði: „Þú sem ríkir yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð“ (Sl 80. 2). Því að sjálfir kerúbarnir báru fjórar ásjónur (Esk 1. 6) og ásjónur þeirra skírskotuðu til fyrirhugunar Guðs.

Því að Ritningarnar segja: „Fyrsta veran var lík ljóni“ (Opb 4. 7) sem skírskotar til máttar hans, stjórnunarvalds og konungsréttar. „Önnur veran var lík uxa“ sem skírskotar til fórnar hans og prestsembættis, en „þriðja veran hafði ásjónu sem maður,“ augljós skírskotun til komu hans í mennskri mynd. „Fjórða veran var lík fljúgandi erni“ sem vísar til náðar Andans sem breiðir vængi sína yfir kirkjuna. Af þessum sökum eru guðspjöll þeirra Jóhannesar, Lúkasar, Matteusar og Markúsar til samræmis við þessar fjórar verur þar sem Kristur ríkir. . .

Þannig var ásýnd þessara fjögurra vera sem er til samræmis við ásýnd sjálfs Orðs Guðs. Orð Guðs talaði við árfeðurna (patríarkana) áður en Móses varð í Guðdómstign sinni og dýrð. En fyrir þá sem bjuggu undir lögmáli fyrirbjó hann prestlega fórnarþjónustu. En síðar þegar hann opinberaðist sem maður sökum okkar sendi hann náð Andans yfir alla jörðina sem „varðveitir okkur í skugga vængja sinna“ (Sl 17. 8) . . . Þar sem þessu er svo fyrirkomið ganga þeir sem hafna þessari birtingarmynd guðspjallanna – það er að segja þeir sem segja að guðspjöllin ættu að vara færri eða fleiri – óheillabraut fávisku og mennskra hugsmíða.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet