« Ritningarlesturinn 22. október 200612. Fyrstu föstudaga tilbeiðslan »

21.10.06

  08:10:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 498 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 21. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 8-12

En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn Heilögum Anda, verður ekki fyrirgefið. Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. Því að Heilagur Andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber.“
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Hilaríon (um 291-371), eyðimerkurfaðir og upphafsmann munklífis í Palestínu. Hugleiðing dagsins: Annað Vatíkanþingið. Um trúboðsstarf kirkjunnar (Ad Gentes), § 23-24: Að bera Kristi vitni í öllu sínu lífi

Þrátt fyrir að sérhverjum lærisveina Krists séu lagðar þær skyldur á herðar að útbreiða trúna eftir fremsta megni, þá útvelur Kristur Drottinn ávallt þá úr hópi lærisveinanna sem hann vill til að vera með sér og til að senda hann til að predika meðal þjóðanna (sjá Mk 3. 13) . . .

En maðurinn verður að bregðast við gagnvart Guði sem kallar og það með slíkum hætti, að ráðgast ekki við hold og blóð (Gl 1. 16) og helga sig fagnaðarerindinu að fullu og öllu. En þannig er einungis unnt að bregðast við þegar Heilagur Andi veitir innblástur og kraft til slíks vegna þess að sá sem er sendur hrærist í lífi og boðun þess sem „tók á sig þjóns mynd“ (Fl 2. 7). Þannig verður hann að vera reiðubúinn að gegna köllun sinni allt sitt líf og afneita sjálfum sér og öllum þeim sem hann leit á sem sína og í stað þess „verða öllum allt“ (1Kor 9. 22).

Þegar hann boðar öllum þjóðum fagnaðarerindið kunngerir hann leyndardóm Krists af trúfestu sem sendiherra hans og lýkur upp munni sínum af djörfung (sjá Ef 6. 19) og blygðast sín ekki fyrir hneyksli krossins. Hann gengur í fótspor Meistara síns, lítillátur og auðmjúkur af hjarta og ber þess vitni að ok hans sé indælt og byrði hans létt (Mt 11. 29).Í anda fagnaðarerindisins ber hann Drottni vitni af langlyndi og þolgæði, í gæsku og af óeigingjarnri elsku og allt til þess að úthella sínu eigin blóði. Hann biður Guð um máttinn og styrkinn svo að honum lærist að það er ríkidómur gleði í miklum þolraunum og þrengingum og djúpri fátækt (2Kor 8. 2).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet