« Ritningarlesturinn 22. nóvember 2006Um forna kaþólska merkingu orðsins afláts »

21.11.06

  08:27:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 553 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 21. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 19. 1-10

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: „Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: „Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Í dag minnist kirkjan: Frumburðarhátíðar hinnar blessuðu Meyjar í musterinu. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Tauler (um 1300-1361), djúphyggjumaður og dóminíkanafaðir. Predikun 68: „Sakkeus, flýt þér ofan!“

Í guðspjallinu lesum við að Sakkeus þráði að sjá Drottin, en var of smávaxinn. Hvernig brást hann við? Hann kleif upp í fíkjutré. Þetta er það sem fólk gerir enn í dag. Einhver þráir að sjá þann sem vinnur stórmerki og veldur miklu uppþoti meðal fólksins. En hann er ekki nægilega stór, hann er of smávaxinn. Hvað gerir hann. Hann klífur upp í lífvana fíkjutréð. Hið lífvana tré táknar dauða skynhrifanna og hins náttúrlega lífs hins innri manns sem ber Guð í sér.

Hvað segir Drottinn okkar Sakkeusi að gera? „Flýttu þér niður!“ Þú verður að leita niður á við og ekki svo mikið sem að halda í einn dropa huggunar ímynda þinna í bæninni, heldur skaltu koma niður í hreinleika smæðar þinnar, í allri örbirgð þinni og vanmætti.

Allt frá því andartaki sem sannleikurinn hefur veitt þér eitthvað ljós ertu en fjötraður við náttúrlegar hneigðir þinar og þá hefur þér ekki enn auðnast að höndla ljósið, það er ekki enn orðið þitt. Hið náttúrlega og náðin starfa enn saman og þú verður að segja skilið við þig sjálfan, enn er ekki um hreinleika að ræða. Af þessum sökum hvetur Guð slíkan mann að koma niður, það er að segja að hann kallar hann til að afneita sjálfum sér og öðlast fullkomið frelsi frá hinu náttúrlega, að svo miklu leyti sem hið náttúrlega er enn fyrir hendi: „Í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Megi þessi dagur eilífðarinnar koma til okkar!

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet