« „En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.“ „Guð hefur vitjað lýðs síns" (sjá Ritningarlesturinn fyrir 19. september) »

20.09.06

  07:14:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 516 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 20. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 7. 31-35

„Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir? Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.' Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.' Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!' En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.“
Í dag heiðrar kirkjan : Heil. Andrés Kim Taegon (1821-1846) og heil. Pál Chong Hasang(1795-1839), píslarvotta í Kóreu. Hugleiðing dagsins: Heil. Bernard frá Clairvaux (1091-1153), sistersíani og kirkjufræðari. Ritskýringarnar við Ljóðaljóðin, 38. hugvekjan: Fáviska þeirra sem hafna því að snúa sér til Guðs

Páll postuli segir að sumir séu sviptir allri þekkingu á Guði (1Kor 15. 34). Ég tel að allir þeir sem þekki ekki Guð séu þeir sem vilja ekki snúa sér til hans. Ég er þess fullviss að ástæðan sem býr þessu að baki grundvallist á því að þeir ímyndi sér að þessi gæskuríki Guð sé harðlyndur og strangur, að þessi miskunnsami Guð sé kröfuharður og ósveigjanlegur, að þessi elskuríki Guð sé miskunnarlaus kúgari. Þannig svíkur illskan sig sjálfa og gerir sér sína eigin ímynd af Guði sem sýnir Guð alls ekki eins og hann er í raun og veru.

Hvað óttist þið, trúlausir? Að hann muni ekki fyrirgefa ykkur syndir ykkar? En hann negldi þær með sinni eigin hendi upp á krossinn. Að þið hafið tamið ykkur að lifa í munaði og að þörf ykkar fyrir slíkt sé óseðjanleg. En hann þekkir veikleika okkar. Að sífelldar syndir ykkar hlekki ykkur eins og keðja? En Drottinn leysir hlekki þeirra sem sitja í fangelsi. Eða ef til vill að hann verið seinn til að rétta ykkur hjálpandi hendi vegna þess hvað syndabyrði ykkar er mikil og þung? „En þar sem syndin jókst, þar flóði náðin yfir enn meira“ (Rm 5. 20). Hafið þið áhyggjur sökum klæðis og fæðis og annarra líkamlegra þarfa, þannig að þið hikið við að segja skilið við eigur ykkar. „Yðar himneski Faðir veit að, að þér þarfnist alls þessa“ (Mt 6. 32). Hvers meira þarfnist þið? Hvað er það sem hlekkjar ykkur til viðbótar við þetta svo að þið gangið ekki veg hjálpræðisins? Þetta er það sem ég hef til málanna að leggja: Þið þekkið ekki Guð og viljið ekki leggja trúnað á það sem við höfum heyrt. Ykkur væri hollara að trúa þeim sem hafa sannreynt þetta.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet