« 11. Hin tólf heiti okkar frammi fyrir hinu Alhelga Hjarta Jesú í Guðslíkamahúsinu.10. Níudagabæn (novena) hins Alhelga Hjarta Jesú »

20.10.06

  07:11:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 605 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 20. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 1-7

Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: „Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi. Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Maríu Bertilla Boscardin (1888-1922). Hugleiðing dagsins: Heil. Katrín frá Síena (1347-1380), Þriðju reglu dóminíkansystir, kirkjufræðari og einn tveggja verndardýrlinga Evrópu. Samræður 18: „Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin.“

Guð sagði við mig: „Enginn getur flúið undan höndum mínum. „Ég er sá sem ég er“ (2M 3. 14) og þú, þú ert ekki sjálfrar þín. Þú ert einungis eins og ég hef gert þig. Ég er Skapari alls þess sem á sér verund, en ekki syndarinnar sem er ekki, og ég hef þannig ekki gert. Og þar sem hún er ekki hluti af mér er hún ekki þess virði að vera elskuð. Hið skapaða auðsýnir mér einungis vansæmd vegna þess að það elskar það sem er því ekki heimilt að elska: Syndina. Það er óhugsandi fyrir mennska sköpun að lifa utan mín. Annað hvort dvelur hún í mér í krafti réttlætis sem refsar fyrir það sem er rangt, eða að hún dvelur í mér í vernd miskunnar minnar. Ljúktu því auga skilnings þíns upp og horfðu á hendi mína. Þú sérð að ég greini frá sannleikanum.“

Þegar ég lauk auga andans þannig upp til að hlýðnast þeim Föður sem er svona mikill, þá sá ég allan alheiminn hvíla í guðdómlegum höndum hans. Og Guð sagði við mig: „Dóttir mín! Sjáðu núna, ekkert getur umflúið mig. Allir sem hér eru dvelja hér sökum réttlætis eða miskunnar vegna þess að þeir eru mínir, skapaðir í mér og ég elska þá takmarkalaust. Það skiptir engu máli hversu gjörspilltir þeir kunna að vera. Ég mun auðsýna þeim miskunn sökum þjóna minna. Ég heyri þá bón sem þú barst fram fyrir mig í svo mikilli elsku og þjáningu . . .“

Þá kenndi sál mín samtímis til blessunar og sársauka líkt og ölvuð utan sjálfrar sín í sívaxandi ákafa þrár sinnar. Blessuð sökum þeirrar sameiningar við Guð sem hún varð aðnjótandi þegar henni gafst að smakka á ljúfleika hans umvafin miskunn hans. Í sársauka sökum þeirra vansæmdar sem svo mikilli gæsku er auðsýnd.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet