« Um forna kaþólska merkingu orðsins aflátsRitningarlesturinn 19. nóvember 2006 »

20.11.06

  10:24:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 501 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 20. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 18. 35-43

Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera. Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá. Þá hrópaði hann: „Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann: „Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?“ Hinn svaraði: „Herra, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.

Í dag heiðrar kirkjan:Heil. Rose Philippine Duchesne (1769-1852). Hugleiðing dagsins: Heil. Símon nýguðfræðingur (um 949-1022), býsanskur guðfræðingur í Stúdítaklaustrinu í Miklagarði. Um Siðfræði 5: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér“

Vinir mínir. Ykkur hefur verið boðað að Guðs ríkið sé hið innra með yður (Lk 17. 21) ef þið æskið þess að hin eilífu gæði falli ykkur í hendur. Flýtið því för ykkar til að höndla og öðlast þau gæði sem ykkur eru fyrirbúin hið innra. Andvarpið og varpið ykkur til jarðar. Rétt eins og blindi maðurinn forðum skuluð þið einnig segja á þessari stundu: „Miskunna þú mér, Guðsonur og ljúktu upp augum sálar minnar, að ég megi sjá það ljós heimsins sem þú ert, ó Guð minn (Jh 8. 12) svo að einnig ég megi verða að barni þessa guðdómlega ljóss (Jh 12. 36). Ó þú hinn miskunnarríki, lát Huggarann jafnframt koma yfir mig svo að hann megi uppfræða mig (Jh 14. 26) um það sem þig áhrærir og hvað er mitt, ó Guð alheimsins.

Dveldu einnig í mér eins og þú sagðir að þú myndir gera, þannig að einnig ég verði þess verður að dvelja í þér. Ó þú hinn ósýnilegi Eini, megi þér þóknast að taka á þig mynd í mér svo að ég sjái ósegjanlega fegurð þína og íklæðist ímynd þinni, ó þú himneski Eini og að mér gleymist allir sýnilegir hlutir. Gef mér þá dýrð sem Faðirinn gaf þér (Jh 17. 22), ó þú hinn miskunnarríki Eini, svo að ég megi samlíkjast þér eins og allir þjónar þínir. Að ég megi öðlast hlutdeild í þínu guðdómlega lífi í náðinni og dvelji í sífellu með þér nú og ávallt og að eilífu.“

© Bræðralag kristinna trúarsetninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet