« SyndinPersónan »

01.10.06

  09:20:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 592 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 1. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 9. 38-43, 45, 47-48

Jóhannes sagði við hann: „Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki." Jesús sagði: „Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig. Sá sem er ekki á móti oss, er með oss. Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum. Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti, þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Thèrése frá Liseux, litla blómið (1873-1896), karmelnunnu og kirkjufræðara. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), biskup í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari. 3. hugleiðingin um 1. Korintubréfið: „Hann fylgdi oss ekki“: flokkadrættir leiða smælingjann til falls.

„En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar“ (1Kor 1. 10). Heil. Páll kemst svo að orði vegna þess að sundrung meðal kristinna manna leiðir ekki til þess að sjálfstæðar einingar verði til, sjálfum sér nægar einingar, heldur að hinn upphaflegi líkami líður undir lok. Ef hver kirkja út af fyrir sig væri sjálfstæður líkami væru líkamarnir margir. En líkaminn er einn og flokkadrættir tortíma honum . . . Eftir að hafa gefið þeim harða áminningu með því að grípa til orðsins „sundrungar,“ grípur Páll til mýkra orðalags og segir: „Heldur séuð þér fullkomlega sameinaðir, í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ Og hann bætir við nokkru síðar að hann eigi ekki við einingu í orðum einum, heldur samfélag hugar og hjarta.

Það er um einingu einnar skoðunar að ræða þar sem samhljóman athafna og verka helst ekki í hendur, til að mynda þegar við erum ekki sameinuð í elsku, þrátt fyrir að trú okkar sé sú eina og sama. Þannig var þetta í Korintuborg á þessum tíma, sumir fygldu einum leiðtoga og aðrir öðrum. Því segir Páll að nauðsynlegt sé að bæði „hugur“ og „skoðun“ fari saman. Flokkadrættina mátti ekki rekja til ólíkrar trúar, heldur mennskrar fordildar: Flokkadrættir eru meðal yðar – „Er þá Kristi skipt í sundur?“ (1Kor 1. 13).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet