« Kaþólska fréttasjáin: Vikan 25. júní til 30. júní 2006Ritningarlesturinn 30. júní 2006 »

01.07.06

  06:32:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 800 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 1. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists laugardaginn 1. júlí er úr Matteusarguðspjalli 8. 15-17

5 Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: 6 „Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“ Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“ 8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,' og hann fer, og við annan: ,Kom þú,' og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,' og hann gjörir það.“ 10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. 11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, 12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ 13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“ Og sveinninn varð heill á þeirri stundu. 14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita. 15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina. 16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann. 17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: „Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.“

Í dag minnist kirkjan: Blessaðs Junipero Sierra

Hugleiðing dagsins:

Orígen (um 185 – 253), prestur og guðfræðingur,
Hugvekja um 7. kafla 3. Mósebókar

„Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki“

Kristur sagði: „Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki Föður míns“ (Mt 26. 29). Ef einhver á meðal ykkar hlustar með hreinsaðri heyrn mun hann bera skyn á hinn ósegjanlega leyndardóm: Drottinn bíður þess að drekka með okkur. Hann bíður þess að fagna með okkur. Hversu lengi mun hann bíða? Þar til hann hefur fullkomnað orð sitt og við höfum öll lotið Kristi og Kristur Föðurnum (1 Kor 15. 28). Þar sem við erum öll limir á líkama hans, þá getum við sagt í vissum skilningi, að hann hafi ekki lotið Guði fullkomlega uns við höfum lotið honum fullkomlega, uns ég síðastur allra syndugra, hef lotið honum. En þegar hann hefur fullkomnað orð sitt og leitt alla sköpun til fullkomins vaxtar, þá getum við sagt með sanni, að að hann hafi lotið Föðurnum í þeim sem lutu Föður hans, í þeim þar sem hann hefur fullkomnað verk Föður síns og hann fól honum á hendur svo að Guð geti orðið allt í öllu (1 Kor 15. 28) . . .

Og hinir heilögu sem fóru á undan okkur bíða einnig eftir okkur, eins hægfara og löt og við erum. Fögnuður þeirra verður ekki fullkominn meðan þeir hafa enn ástæðu til að gráta syndir okkar. Þessu ber postulinn vitni fyrir mér með orðunum: „Án vor skyldu þeir ekki fullkomnaðir verða“ (Heb 11. 40). Sjáið: Abraham bíður, Ísak bíður, Jakob ásamt öllum spámönnunum bíður til að njóta fullsælunnar með okkur. . . Ef þið eruð heilög munuð þið njóta fagnaðarins þegar þið hverfið úr þessu lífi, en þessi fögnuður verður ekki fullkominn fyrr enginn af limum líkamans vantar í þennan hóp. Þið munið einnig bíða eftir hinum, rétt eins og aðrir biðu ykkur. Þar sem þið sem tilheyrið limunum getið ekki notið fagnaðarins til fulls, hversu meira á þetta þá ekki við um Drottin okkar og Frelsara sem er bæði höfundur og höfuð líkamans? Þá höfum við öðlast það vaxtartakmark sem Páll postuli vék að: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér“ (Gl 2. 20). Þá drekkur Æðsti prestur okkar af vínviðnum á nýjum himni og á nýrri jörð í nýjum mennskum persónuleika með nýjum mennskum persónum, þeim sem syngja hinn nýja söng.

Copyright © Confraternity of Christian Doctrine

SJÁ VEFRIT KARMELS:

No feedback yet