« „Guð hefur vitjað lýðs síns"(sjá Ritningarlesturinn fyrir 19. september)„Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín" (Jh 12. 32) »

19.09.06

  06:54:04, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 487 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 19. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 7. 11-17

Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana:„Grát þú eigi!" Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!" Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og „Guð hefur vitjað lýðs síns." Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Janúaríus (d. 305). Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari. Predikun 98: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!"

Enginn kristinn einstaklingur efast um að fólk rísi upp frá dauðum. Vissulega hafa allir augu til að sjá hvernig hinn dauði rís upp með sama hætti og sonur ekkjunnar sem við höfum rétt í þessu heyrt um í guðspjalli dagsins. En það eru ekki allir sem eru þess umkomnir að sjá fólk sem er andlega dautt rísa upp. Það er enn meira að reisa þann upp sem lifa mun að eilífu heldur enn þann sem deyja mun aftur.

Móðir unga mannsins, ekkjan, fylltist gleði þegar hún sá son sinn rísa upp. Móðir okkar, kirkjan, fagnar einnig þegar hún sér börn sín rísa upp með andlegum hætti daglega. Sonur ekkjunnar sannreyndi líkamsdauðann, en hinn hópurinn hefur dáið dauða sálarinnar. Fólk úthellti tárum þegar sá fyrri dó með líkamlegum hætti, en það hirti ekkert um hinn ósýnilega dauða hans. Það sá hann meira að segja ekki. Sá eini sem lét sér þetta einhverju máli skipta er sá sem ber skyn á þennan tvíþætta dauða. Einungis sá sem getur endurvakið lífið þekkir þennan tvíþætta dauða. Ef Drottinn hefði ekki komið til að lífga hina dauðu, þá hefði Páll postuli ekki sagt: „Vakna þú sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér“ (Ef 5. 14).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet