« 10. Níudagabæn (novena) hins Alhelga Hjarta Jesú9. Litanía hins Alhelga Hjarta Jesú »

19.10.06

  07:57:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 725 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 19. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 47-54

„Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu. Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar. Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.' Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð. Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga.“ Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt 54og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Isaac Jogues (1607-1646), Jean de Brebeuf (1539-1649) og félaga, fyrstu píslarvottana í Norðurameríku. Hugleiðing dagsins: Heil. Gregoríos frá Nazianzos (330-390), biskup og kirkjufræðari. 3. umfjöllunin um guðfræði: „Tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt“

Sú var tíðin að sá sem þið fyrirlítið var ykkur æðri. Sá sem nú er maður var fullkominn að eilífu. Hann var í upphafi og án orsakar. Þá ofurseldi hann sig fallvaltleika þessa heims á vald. Þetta gerði hann til að frelsa ykkur sem auðsýnið honum vansæmd, ykkur sem fyrirlítið Guð fyrir að hafa íklæðst grófu eðli ykkar.

Hann var vafinn reifum en þegar hann reis upp í gröfinni svipti hann af sér líkblæjunum. Hann var lagður í jötu en vegsamaður af englum, kunngerður af stjörnu og tilbeðinn af vitringunum . . . Hann varð að flýja til Egyptalands en frelsaði þetta land undan hjátrú Egyptanna. Hann var hvorki fagur né glæsilegur fyrir mönnum (Jes 53. 2), en í augum Davíðs „fegurri en mannanna börn“ (Sl 45. 3) og á fjallinu skein ásjóna hans bjartari en sólin (Mt 17. 1). Sem maður var hann skírður, en sem Guð bar hann burt synd heimsins. Hann þarfnaðist ekki hreinsunar heldur vildi hann helga vötnin. Sem maður var hans freistað, en sem Guð sigraði hann heiminn (Jh 16. 8) . . . Hann var hungraður en fæddi þúsundir, sá sem er „brauðið sem niður stígur af himnum“ (Jh 6. 50). Hann var þyrstur, en hrópaði: „Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki“ (Jh 7. 37) . . . Hann vissi hvað var að örmagnast, en er hvíld öllum þeim „sem erfiði hafa og þungar byrðar“ (Mt 11. 28) . . . Hann var sagður „Samverji sem hefði illan anda“ (Jh 8. 48), en það er hann sem frelsar þann sem fallið hefur í hendur ræningjum (Lk 10. 30) og hrekur djöflana á flótta. Hann bað, en var sá sem kenndi okkur að biðja. Hann grét, en er sá sami sem bindir enda á allan grátur. Hann var framseldur fyrir smáupphæð, en er sá sem friðþægir fyrir heiminn fyrir hátt gjald: Með sínu eigin blóði.

Líkt og lamb var hann leiddur til slátrunar, en jafnframt sá sem leiðir Ísrael og allan heiminn til góðs haglendis (Esk 34. 14). Eins og lamb var hann þögull, en er Orðið sem hrópandinn í eyðimörkinni boðaði (Mk 1. 3). Hann var særður og lemstraður, en það er hann sem græðir hvers kyns sjúkdóma og veikindi (Mt 9. 35). Hann var hafinn upp á tré og nöglum nístur, en það er hann sem græðir okkur með tréi lífsins. Hann dó, en miðlar lífi og tortímir dauðanum. Hann var grafinn, en reis upp og sté upp til himna og þannig frelsaði hann sálir okkar úr víti.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet