« Ritningarlesturinn 20. nóvember 2006Ritningarlesturinn 18. nóvember 2006 »

19.11.06

  09:29:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 645 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 19. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 13. 24-32

En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta. Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né Sonurinn, enginn nema Faðirinn.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Agnesi frá Assisí (1197-1253), systur heil. Klöru. Hugleiðing dagsins: John Henry Newman (1801-1890), kardínáli og guðfræðingur. Parochial and Plain Sermons, Volume 4, n°22 (Edited by W.J. Copeland): „Þið verðið einnig að vera reiðubúnir“

Frelsarinn mælti þessi viðvörunarorð þegar hann var að yfirgefa heiminn, yfirgefa hann, það er að segja hvað áhrærði sýnilega nærveru sína. Hann horfði fram til allra þeirra mörg hundruð ára sem líða myndu, áður en hann snéri til baka. Hann þekkti sína eigin fyrirhugun og fyrirhugun Föður síns um að láta náðarríka nærveru sína hverfa smám saman og láta heiminn standa á eigin fótum. Hann hafði í huga að sér yrði afneitað og þetta myndi jafnvel breiðast út meðal játenda sinna. Hann sá fyrir ástand heimsins og kirkjunnar eins og við sjáum þetta blasa við sjónum í dag þegar langvarandi fjarvera hans blési lífi í þá afstöðu, að hann snéri ekki til baka . . .

Með miskunnarríkri raust sinni hvíslar hann í eyru okkar að treysta því ekki sem við sjáum og ekki taka undir þá almennu vantrú að berast í burtu með heiminum, heldur að „vaka og biðja“ og að horfa til endurkomu sinnar. Þessi náðarríku varnaðarorð eiga vissulega að enduróma sífellt í hugsunum okkar, jafn áþreifanleg, áminnandi og einlæg og þau eru.

Hann sagði fyrir um fyrstu komu sína, en hann kom kirkju sinni á óvart þegar hann kom. Kom hans mun verða enn óvæntari í síðara skiptið og koma mönnum í opna skjöldu núna þegar hann hefur ekki útmælt þennan tíma þegar hann snýr aftur eins og áður, heldur skyldi okkur eftir í væntingu í trú og elsku . . . Við eigum ekki einfaldlega að trúa, heldur að vaka; ekki einungis að elska, heldur að vaka; ekki einungis að hlýða, heldur að vaka. Að vaka eftir hverju? Eftir þessari mikilvægu stund: Komu Krists.

Hvernig sem við svo skiljum hvað felst að baki þessara orða eða og til hvaða takmarks sem þau svo beina okkur, þá finnst okkur eins og okkur sé lögð sérstök skylda á herðar sem kemur okkur ekki svo auðveldlega í huga. Flest okkar höfum gert okkur almennar hugmyndir um hvað felst í því að trúa, óttast, elska og hlýða. En ef til vill höfum við ekki íhugað eða skiljum hvað felst í því að vaka. Hvað er að vaka? Ég tel að útskýra megi þetta þannig: Að vaka eftir Kristi . . . með Kristi . . .

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet