« „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín" (Jh 12. 32)Ég, Ég, ÉG! – eftir föður Jerry Orbos, SVD, Filippseyjunum »

18.09.06

  07:19:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 629 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 18. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 7. 1-10

Þá er hann hafði lokið máli sínu í áheyrn lýðsins, fór hann til Kapernaum. Hundraðshöfðingi nokkur hafði þjón, sem hann mat mikils. Þjónninn var sjúkur og dauðvona. Þegar hundraðshöfðinginn heyrði um Jesú, sendi hann til hans öldunga Gyðinga og bað hann koma og bjarga lífi þjóns síns. Þeir komu til Jesú, báðu hann ákaft og sögðu: „Verður er hann þess, að þú veitir honum þetta, því að hann elskar þjóð vora, og hann hefur reist samkunduna handa oss." Jesús fór með þeim. Þegar hann átti skammt til hússins, sendi hundraðshöfðinginn vini sína til hans og lét segja við hann: „Ómaka þig ekki, herra, því að ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín. En mæl þú eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,' og hann fer, og við annan: ,Kom þú,' og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,' og hann gjörir það." Þegar Jesús heyrði þetta, furðaði hann sig á honum, sneri sér að mannfjöldanum, sem fylgdi honum, og mælti: „Ég segi yður, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið þvílíka trú." Sendimenn sneru þá aftur heim og fundu þjóninn heilan heilsu.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Jósef frá Cupertino (1603-1663). Hugleiðing dagsins: Heil. Frans frá Assisí. Fyrsta reglan, 17: „Ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt.“

Í þeirri elsku sem er Guð bið ég alla mína bræður, þá sem predika, biðja, vinna líkamlega vinnu, klerka og leikbræður, að leitast við að vera auðmjúka í öllum efnum. Að þeir leiti sér ekki eigin dýrðar og fullnægju eða verða gagnteknir stærilæti hið innra sökum góðra orða og verka. Drottinn segir í orði sínu: „Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir“ (Lk 10. 20). Gerum okkur fyllilega ljóst að í okkur sjálfum er aðeins um ágalla og syndir að ræða. Við skulum fremur gleðjast í þolraunum í sálum okkar og alls kyns ofsóknum með líkamlegum hætti í þessum heimi sökum hins eilífa lífs.

Bræður! Þannig skulum við vera á varðbergi gagnvart stærilæti og hégóma. Verum á varðbergi gagnvart speki þessa heims og sérhyggjunni. Sá sem er þræll eigingjarnra hneigða sinna leggur mikið upp úr því að tala, en verkin láta standa á sér. Í stað þess að leita trúar helgunar Andans hið innra, þráir hann ytri trú og helgun sem blasir við mennskum augum. Um slíka komst Drottinn svo að orði: „Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín“ (Mt 6. 2). Sá sem er hins vegar ekki fjandmaður Anda Drottins þráir að auðmýkja alla sérhyggju, illsku og þvermóðsku holdsins. Hann leitast eftir fremsta megni að vera auðmjúkur og þolgóður og lifa í hreinum einfaldleika og friði andans. Það sem hann þráir um fram allt annað er guðsótti sonarelskunnar, speki Guðs og elsku Guðs, Föðurins, Sonarins og hins Heilaga Anda.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet