« Ritningarlesturinn 19. nóvember 2006Hl. Teresa Margrét (Redi) – Hjarðmærin Elpina »

18.11.06

  09:37:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 525 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 18. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 18. 1-8

Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.' Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.'“ Og Drottinn mælti: „Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“

Í dag minnist kirkjan: Vígslu basilíka heil. Péturs og Páls.  Hugleiðing dagsins: Meistari Eckhart (um 1260-1327), djúphyggjumaður og guðfræðingur í Dóminíkanareglunni. Andlegar viðræður: „Við verðum sífellt að biðja“

Einhver lagði fyrir mig eftirfarandi spurningu: Margir vilja draga sig fullkomlega út úr heiminum og lifa í einveru til að öðlast frið, eða þá að dvelja í kirkjunum. Getur verið að þetta sé það besta sem við getum gert? Ég segi: Nei! Og þetta er ástæðan.

Sá sem hefur hið rétta hugarfar til að bera líður vel alls staðar og meðal alla. En þeim sem skortir samsemd líður alls staðar illa og meðal allra. Sá sem öðlast hefur hlutdeild í Guði hefur einungis Guð í huga og fyrir honum verða allir hlutir að Guði. Slíkur einstaklingur ber Guð í sér hvað sem hann gerir og hvar sem hann er staddur og öll hans verk verða guðdómleg . . .

Vissulega krefst slíkt brennandi ákafa og elsku auk árvekni þess að vaka yfir samvisku sinni, árvekni og raunverulegra og áþreifanlegra hygginda sem móta alla andlega afstöðu okkar hvað áhrærir hluti og fólk. Enginn getur ræktað með sér slík hyggindi með því að leggja á flótta til að leita skjóls í einveru fjarri hinum ytri heimi. Þvert á móti verðum við að læra að dvelja í einveru hið innra hvar sem við erum og meðal hverra sem við erum. Okkur verður að lærast að kafa til botns í hlutina til að festa þar hendur á Guði . . .

Þannig verðum við að vera gagntekin af nærveru Guðs og láta elsku Guðs endurmóta okkur. Við verðum að vera eitt með honum að öllu leyti þannig að nærvera Guðs megni að uppljóma okkur átakalaust.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet