« Ritningarlesturinn 19. júlí 2006Ritningarlesturinn 17. júlí 2006 »

18.07.06

  06:27:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 467 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 18. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 11. 20-24

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“

Í dag minnist kirkjan: Blessaðrar Angelinu frá Marsciano.  Hugleiðing dagsins: Heil. Gregor hinn mikli (um 540-604), páfi og kirkjufræðari. Umfjöllun um iðrunarsálmana sjö: „Þá tók hann að ávíta borgirnar . . . fyrir að hafa ekki gjört iðrun.“

Við skulum hrópa með Davíð. Hlustum á grát hans og úthellum tárum ásamt honum. Hyggjum að því hvernig hann reis á fætur að nýju og fögnum með honum: „Guð, vertu mér náðugur sökum elsku þinnar“ (Sl 51. 3).

Setjum okkur fyrir sálarsjónir mann sem er alvarlega lemstraður og kominn að því að varpa öndinni og liggur nakinn í vegrykinu. Hann stynur sáran í von um að læknirinn komi, andvarpar og biður þann sem ber skyn á ástand sitt að auðsýna sér miskunn. Nú greiðir syndin sálinni svöðusár. Þið sem særist með þessum hætti, gerið ykkur ljóst að læknir ykkar er hið innra og sýnið honum svöðusár synda ykkar. Megi tár ykkar hræra við hjarta hans og ef þið verðið að leita hans af þolgæði, látið þá andvörp ykkar rísa úr djúpi hjartans. Megi særindi ykkar birtast fyrir augliti hans svo að þið heyrið sömu orðin og Davíð: „Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína“ (2 Sam 12. 13).

„Guð, vertu mér náðugur sökum elsku þinnar.“ Það fólk sem gerir lítið úr ágöllum sínum vegna þess að það þekkir ekki þessa miklu miskunnsemi nýtur lítillar miskunnar. Hvað sjálfan mig áhrærir var fall mitt mikið og syndgaði vísvitandi. En þú, Almáttugi læknir, leiðréttir þá sem auðsýna þér vansæmd. Þú uppfræðir þá sem þekkja ekki sekt sína og fyrirgefur þeim sem játa hana.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet