« Spádómur heil. Nilosar (dáinn 12. nóvember 1651), einsetumanns á AþosfjalliFögur messa »

18.08.06

  08:27:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 566 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 18. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 19. 3-12

Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?" Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.' Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja." Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?" Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig. Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór." Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast." Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Jeanne Frances de Chantal (1572-1641). Hugleiðing dagsins Jóhannes Páll páfi II. Ræða á sýnodus um fjölskyldulíf (október 1980), §5: „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“

Fyrir dauða sinn þar sem Kristur stóð á þröskuldi páskaleyndardómsins bað hann með eftirfarandi orðum: „Heilagi Faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við“ (Jh 17. 11). Jafnframt þessu bað hann ef til vill einnig fyrir einingu hjóna og fjölskyldunnar. Hann bað fyrir einingu lærisveina sinna og fyrir einingu kirkjunnar. Og heilagur Páll bar leyndardóm kirkjunnar saman við hjónabandið (Ef 5. 32). Þannig auðsýnir kirkjan fjölskyldunni ekki einungis mikla umhyggju, heldur lítur hún á fjölskylduna með vissum hætti sem fyrirmynd sína. Í Kristselskunni, elsku eiginmanns síns, sem elskaði okkur allt til dauða, íhugar kirkjan þá eiginmenn og eiginkonur sem hafa heitið því að elska hvert annað allt sitt líf allt til dauðastundarinnar. Og hún telur það vera sérstaka köllun sína að vernda þessa elsku.

Hjónabandið er sakramenti. Þeir sem voru skírðir í nafni Drottins kvænast einnig í nafni hans. Elska þeirra er hlutdeild í hinni guðdómlegu elsku. Guð er uppspretta hennar. Hjónaband kristinna hjóna er eins og endurspeglun stórmerkja lífs Guðs á jörðinni, lífs sem er hið elskuríka samfélag hinna þriggja Persóna í einum Guði og sáttmáli Guðs við kirkjuna í Kristi. Kristið hjónaband er sakramenti hjálpræðisins vegna þess að sérhver meðlima fjölskyldunnar gengur á vegi helgunarinnar.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hollt væri falsboðendum orðsins á tjarnarbökkum hugvillna mennskra hugsmíða að lesa þennan texta.

18.08.06 @ 08:39