« Ég, Ég, ÉG! – eftir föður Jerry Orbos, SVD, FilippseyjunumHin sjö sakramenti veraldarhyggjunnar »

17.09.06

  08:58:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 786 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 17. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 8. 27-35

Jesús fór nú ásamt lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn mig vera?“ Þeir svöruðu honum: „Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum.“ Og hann spurði þá: „En þér, hvern segið þér mig vera?“ Pétur svaraði honum: „Þú ert Kristur." Og hann lagði ríkt á við þá að segja engum frá sér. Þá tók hann að kenna þeim: „Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga.“ Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann. Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: „Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Róbert Bellarmine (1542-1621), kardínála.  Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari Predikun 96: „Eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“

Þegar Drottinn býður þeim sem vilja fylgja honum að afneita sjálfum sér, þá teljum við þetta boð erfitt og hart á að hlýða. En ef sá sem býður kemur okkur til hjálpar til að uppfylla það, þá er boð hans hvorki erfitt né sársaukafullt . . . og jafnframt að annað það sem Drottinn mælti er sannleikanum samkvæmt: „Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Mt 11. 30). Svo er að elskan gæðir það ljúfleika sem sársaukafullt er í fyrirmælum hans. Öll vitum við hvílíkum stórmerkjum elskan kemur til leiðar . . . Hvílíkt harðræði hefur fólk ekki lagt á sig og sætt sig við óásættanlegar lífsaðstæður til að nálgast takmark elsku sinnar! . . . Hvað er svo undarlegt við það að þeir sem elska Krists og vilja fylgja honum afneiti sjálfum sér til að elska hann? Ef maðurinn glatar sjálfum sér með því að elska sjálfan sig, þá leikur ekki á því nokkur vafi að hann finnur sjálfan sig með því að afneita sjálfum sér . . .

Hver myndi hafna því að fylgja Kristi til að dvelja á stað hinnar fullkomnu hamingju, æðsta friðar og eilífs kyrrleika? Það er gott að fylgja honum eftir til þessa staðar. En við verðum að þekkja veginn til að komast þangað . . . Ykkur virðist vegurinn markaður ótal torfærum og vera fráhrindandi ef þið viljið fylgja Kristi. Gangið á eftir honum! Sá vegur sem menn hafa varðað er torfær, en Kristur ruddi hann þegar hann gekk hann til himna. Hver hafnar því þannig að ganga til móts við dýrðina?

Allir þrá að rísa upp til dýrðarinnar, en þá verður að klífa stiga auðmýktarinnar. Hvers vegna hefur þú fót þinn upp yfir sjálfan þig? Viltu fremur harpa niður heldur en að ná til hæðanna? Byrjaðu í þessum stiga og hann mun beina þér til hæða. Lærisveinarnir tveir sem sögðu: „Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Þeir hirtu ekkert um þessa auðmýkt. Þeir vildu ná til hæða, en komu ekki auga á stigann. En Drottinn leiddi þeim stigann fyrir sjónir. Hvert var svar hans? „Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk“ (Mk. 10. 38). Þið sem þráið að verða hafðir til tignar, getið þið drukkið kaleik auðmýktarinnar? Þess vegna lét hann ekki nægja að segja með almennum orðalagi: „Afneiti hann sjálfum sér og fylgi mér, “ heldur bætti við: „Megi hann taka upp sinn kross og fylgja mér.“

© Bræðralag kristinna trúarsetninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet