« Hl. Teresa Margrét (Redi) – Hjarðmærin ElpinaHl. Katrín frá Siena – Ó, eilífi Faðir! »

17.11.06

  07:45:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 797 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 17. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 17. 26-37

„Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum. Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast. Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur. Minnist konu Lots. Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf. Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]" Þeir spurðu hann þá: „Hvar, herra?" En hann sagði við þá: „Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Elísabetu af Ungverjalandi (1207-1231). Hugleiðing dagsins: Heil. Gregoríos frá Nyssa (335-395), einn Kappadokíufeðranna þriggja, biskup. Hugleiðing 11 um Ljóðaljóðin: Menn átu og drukku, keyptu og seldu.

Drottinn hefur gefið lærisveinum sínum margþætta uppfræðslu, þannig að hugir þeirra megni að hrista af sér fjötra efnisheimsins, líkt og um leir sé að ræða, og þannig risið upp til móts við yfirskilvitleikann. Eitt af þessu felst í því, að allir þeir sem meta hið himneska mikils í eigin lífi, verða að vinna bug á svefninum. Þeir verða að vera árvökulir í anda og svo að segja að hrekja tælara sálnanna og tortímanda sannleikans frá sér eins og svefnhöfga.

Með höfga og svefnmóki á ég við þær draumkenndu tálsýnir sem þeir ánetjast sem hafa orðið að fórnardýrum blekkinga þessa lífs. Hér á ég við opinber embætti, fjármuni, sýndarmennsku, munaðarlíf, ofurást á eigin verðleikum, vegtyllur og allt annað veraldlegt sem eru tálsýnir í einni eða annarri mynd og þeir keppa eftir af hégómagirnd sem leggja ekki rækt við andlega íhugun. Allt mun þetta líða undir lok í tímanna rás. Tilvera þeirra er hrein yfirborðsmennska og þeir eru alls ekki það sem þeir telja sjálfa sig vera. Ekki mun þeim heldur auðnast að halda í það sem þeir telja sjálfum sér trú um að þeir séu. Þeir hafa ekki fyrr birst á leiksviðinu en þeir hverfa aftur sjónum. Þeir eru líkastir öldum sem lyfta faldi sínum í vatni og vindsveipurinn framkallar eina örskotsstund. Þær vegtyllur sem þeir telja sig verðskulda fá ekki staðist því að þeir eru ekki fyrr risnir í vindgustinum þegar þeir hníga að nýju og engin ummerki sjást lengur á sléttum vatnsfletinum. Til þess að koma í veg fyrir að við ánetjumst slíkum tálsýnum erum við beðin um að þurrka svefnstírurnar af augum sálarinnar, þannig að athygli okkar beinist ekki að fallvaltleikanum og við sogumst í burtu frá hinni sönnu verund og eðli.

Þar af leiðandi mælir Drottinn til okkar varnaðarorðum og biður okkur að vera árvökul: „Verið gyrtir um lendar og látið ljós yðar loga“ (Lk 12. 35). Þá mun það ljós sem endurspeglast í augum okkar hrekja svefnhöfgann á brott og sá styrkur sem líkaminn hefur af mittislindanum efla hann og við hrista af okkur svefnmókið með viðleitni okkar. Ljóst er hvað felst þessari líkingu að baki. Maður sá sem gyrst hefur sjálfstjórninni lifir í ljósi hreinnar samvisku og lífsferill hans verður uppljómaður með lampa eindrægninnar. Þannig heldur sál hans vöku sinni í ljósi sannleikans og hann mun ekki ánetjast þeim hégómaskap draumsýna sem við höfum minnst á.

Ef okkur auðnast þetta, eins og Orðið segir, mun líf okkar verða líkt og englanna, eins og þegar hann segir: Og verið þér líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra (Lk 12. 36).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet