« „Ég nenni ekki, ég vil ekki, ég hef ekki tíma núna!“Vald kirkjunnar á jörðu – skriftavaldið »

17.08.06

  05:26:55, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 785 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 17. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 18. 21-35 og 19. 1

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil. Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.' Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!' Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.' En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?' Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Hýacint (1185-1257), postula Póllands. Hugleiðing dagsins:Heil. Faustina Kowalska (1905-1938), pólsk nunna og boðberi Guðdómlegrar miskunnar hins Alhelga Hjarta Jesú. Litla dagbókin, (1937): „Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?“

Ó Guð minn, Alhelga Þrenning. Ég þrái að tilbiðja miskunn þína með sérhverjum andardrætti sem ég dreg, sérhverjum hjartaslætti mínum, sérhverjum slætti slagæðar minnar. Ég þrái að ummyndast að fullu og öllu í miskunn þína og verða þannig að lifandi endurskini þínu, Drottinn. Megi háleitasti eiginleiki guðdómlegra eiginda þinna, miskunnsemin, streyma til náunga minna um sál mína og hjarta.

Hálpa þú mér Drottinn, svo að augu mín verði full miskunnsemdar þannig að ég dæmi aldrei eftir hinu ytra, heldur að ég skynji fegurð sálar náunga míns og geti komið honum til hjálpar. Hjálpa þú mér Drottinn, svo að eyru mín verði full miskunnsemdar þannig að ég hlusti á þarfir náunga míns og láti ekki andvörp hans og raunir fram hjá mér fara, heldur mæli til hans huggunarríkum fyrirgefningarorðum. Hjálpa þú mér Drottinn, þannig að hendur mínar verið hendur miskunnsemdar góðra verka þannig að ég leggi náunga mínum gott eitt til og axli sjálf byrðar erfiðis. Hjálpa þú mér Drottinn, svo að ég öðlist fætur miskunnsemdarinnar og hraði mér til að koma náunga mínum til hjálpar og örmagnist ekki sökum þreytu. Hin sanna hvíld mín felst í þjónustunni við náungann.

Hjálpa þú mér Drottinn, svo að hjarta mitt verði fullt miskunnar þannig að ég skynji þjáningar náunga míns og að ég víki mér ekki undan því að deila hjarta mínu með öllum mönnum, einnig þeim sem ég veit að vísa munu gæsku minni á bug. Og hvað mig sjálfa áhrærir mun ég leita skjóls í Miskunnarríku Hjarta Jesú. Ég mun fela mínar eigin þjáningar þögninni á vald. Drottinn minn! Megi miskunn þín finna sér hvíldarstað í mér.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet