« Hin sjö sakramenti veraldarhyggjunnarTáknið sem móti verður mælt (sjá Ritningarlestur dagsins 15. september) »

16.09.06

  06:51:52, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 668 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 16. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 6. 43-49

Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt. En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans. En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi? Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim. Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt. Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið."

Í dag heiðrar kirkjan : Heil. Kornelíus. Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari: Predikun 179: Bygging grundvölluð á bjargi

Bræður, Jakob postuli ávarpaði fólk sem var vandlætingasamt hvað áhrærir orð Guðs og sagði: „Verið gjörendur orðsins og eigi aðeins áheyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður“ (Jk 1. 22). Þið mynduð hvorki svíkja höfund orðsins eða þann sem boðar það. Þið mynduð svíkja ykkur sjálfa . . . Það væri jafnframt harla haldlaust ef predikarinn boðaði orð Guðs hið ytra, en hlustaði ekki fyrst og fremst á það hið innra með sjálfum sér til að verða að gjörenda þess . . .

Hver er það sem er gjörandi orðsins hið innra? Þetta er sá sem forðast illar langanir. Hver er gjörandi þess hið ytra? Sá sem „miðlar hinum hungruðu af brauði sínu“ (Jes 58. 7). Nágranni okkar sér hvað við gerum, en það er Guð einn sem er vottur þess hvers vegna við gerum það. Verið því „gjörendur orðsins.“ Ef þið gerið ekkert annað en að hlusta á það svíkið þið einungis ykkur sjálfa. Þið munið hvorki svíkja Guð eða þjón hans. Ég get ekki lesið í hjörtu ykkar, en Guð sem horfir inn í djúp hjartans getur séð það sem menn geta ekki séð. Hann sér hversu ákaft þið hlustið, hugsanir ykkar, ákvarðanir, framfarir ykkar í náðinni, árvekni ykkar í bæninni, þær bænir sem þið leggið fram fyrir hann til að öðlast það sem ykkur skortir og þakkargjörð ykkar sökum þess sem þið hafið þegið.

Íhugið eftirfarandi, bræður! Ef það er lofsvert að hlusta á orðið, hversu lofsverðara er það þá ekki að vera gjörendur þess. Ef þið hlustið ekki á það gerið þið ykkur seka um vanrækslu og byggið ekkert á því. Ef þið hlustið á það án þess að vera gjörendur þess verður bygging ykkar að rústum einum. Hvað þetta áhrærir veitir Drottinn okkur góða leiðsögn: „Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim. Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi.“ Að hlusta og að framkvæma er að byggja á bjargi . . . Að hlusta án þess að hafast neitt að er að byggja á sandi. Að neita að hlusta felur í sér að ekkert verður byggt.

© Bræðralag kristinna trúarsetninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet