« Hugleiðing eftir John Henry Newman, kardínála (1801-1890).Ritningarlesturinn 15. október 2006 »

16.10.06

  08:00:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 533 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 16. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 29-32

Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar. Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon. Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Gerard Majella (1726-1752), verndardýrlingur vanfærra mæðra. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), biskup í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari. 4. hugvekjan um Fyrsta Korintubréfið: Tákn Jónasar

Við skulum úthella tárum sökum heiðingjanna sem skilja ekki það hjálpræði sem Guð þráir að gefa þeim. Já, eiginmaður elskar konu sína minna en við elskum mannkynið og þráum að leiða það til hjálpræðis. Við skulum úthella tárum og gráta sökum þessara vantrúarmanna vegna þess að fyrir þeim er „eru orð krossins heimska,“ þegar hann er þvert á móti „kraftur Guðs og speki Guðs“ (1Kor 1. 18, 24).

Sjá þú, maður! Jesús Kristur „tók á sig þjóns mynd“ (Fl 2. 7) sökum þínum, fyrir þig dó hann á krossi og fyrir þig reis hann aftur upp frá dauðum. Og þú segir að það sé með öllu útilokað að trúa á slíka elsku, að tilbiðja slíkan Guð. Það sem þessi Konungur gerði fyrir þig, fjandmann sinn, hvaða faðir meðal okkar eða sonur eða vinur hefði verið reiðubúinn að gera slíkt fyrir þig?

Þegar ég segi: „Guð minn var negldur á kross,“ þá svara heiðingjarnir: „Skynsemin getur ekki samþykkt slíkt. Leið hann píslir og lét krossfesta sig til að bjarga ekki sjálfum sér? Ef hann getur ekki bjargað sjálfum sér, hvernig getur hann þá bjargað öðrum? (sjá Mt 27. 42). Allt brýtur þetta í bága við skynsemina.“ Þetta er satt. Krossinn er leyndardómur sem er æðri mennskum skilningi. Hann er tákn máttar sem er skilningi okkar æðri. Þegar Hebrearnir þrír stóðust eldinn eftir að þeim var varpað í eldsofninn (Sjá Dn 3), þá var það ótrúlegra en ef þeim hefði ekki verið varpað í hann. Það er eðlilegt þegar hvalurinn gleypti Jónas. En það sem hljómar sem hver önnur ólíkindi var að Jónas lifði í iðrum ófreskjunnar. Með sama hætti sannaði Kristur Guðdómstign sína betur með því að sigrast á dauðanum í greipum dauðans, en ef hann hefði ekki viljað deyja.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet