« Ritningarlesturinn 17. júlí 2006Ritningarlesturinn 15. júlí 2006 »

16.07.06

  05:29:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 547 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 16. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 16. júlí er úr Markúsi 6. 7-13

Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla. Og hann sagði við þá: "Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar." Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun, ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.

Í dag minnist kirkjan: Vorrar Frúar af Karmelfjalli. Hugleiðing dagsins: Hl. Gregor hinn mikli (um 540-604), páfi og kirkjufræðari. Hugvekja um guðspjöllin 17, 1-3: „Og hann tók að senda þá út, tvo og tvo“

Elskuðu bræður. Drottinn okkar og Frelsari uppfræðir okkur stundum með orðum sínum, en stundum í verki. Sjálf verk hans eru boðorð vegna þess að þegar hann gerir eitthvað án þess að víkja að því orðum, leiðir hann okkur fyrir sjónir hvernig okkur beri að breyta sjálfum. Hér sendir hann lærisveina sína út, tvo og tvo saman til að predika vegna þess að kærleiksboðin eru tvö: Að elska Guð og náungann. Drottinn sendi lærisveinana tvo og tvo saman til þess að leiða okkur fyrir sjónir, að sá sem elskar ekki náunga sinn á alls ekki að boða orðið.

Það er mikil gæska sem býr því að baki þegar hann „sendir þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til“ (Lk 10. 1). Þetta er sökum þess að Drottinn kemur í kjölfar boðenda orðsins vegna þess að predikunin er skilyrðið: Drottinn kemur til að dvelja í sálum okkar þegar hvatningarorðin hafa farið á undan sem fyrirrennarar. Þannig getum við boðið sannleikann velkominn í sálum okkar. Því segir Jesaja við predikarana: „Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni“ (Jes 40. 3). Og sálmaskáldið boðaði þeim einnig: „Leggið braut fyrir þann sem rís í vestri“ (Sl 67. 5 Vúlgata). Drottinn rís upp í vestri [með upprætingu ástríðnanna] vegna þess að þegar hann lægði sig í píslum sínum, reis hann upp í því meiri dýrð. Hann reis upp fyrir þá sem lægja sig með því að troða undir fótum þann dauða sem hann leið. Þannig ryðjum við braut fyrir þann sem rís upp fyrir þá sem lægja sig þegar við boðum sálum ykkar dýrð hans, þannig að hann geti upplýst þær í kjölfarið þegar hann kemur í elskuríkri nærveru sinni.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet