« Vald kirkjunnar á jörðu – skriftavaldið„Við viljum meira nammi . . . við viljum meira nammi!“ »

16.08.06

  06:36:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 491 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 16. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 18. 15-20

Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.' Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður. Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni. Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."

Í dag heiðrað kirkjan: Heil. Stefán, fyrsta píslarvott frumkirkjunnar. Hugleiðing dagsins: Annað Vatíkanþingið, Sacrosanctum Concilium, § 7: „Þar er ég mitt á meðal þeirra.“

Kristur er ætíð nærverandi í kirkju sinni, einkum í helgisiðaþjónustunni. Hann er nærverandi í fórn messunnar, ekki einungis í persónu þjóna sinna, „sá hinn sami sem nú fórnar sér í þjónustu prestsins og fórnaði sjálfum sér forðum á krossinum (20), heldur fyrst og fremst í efnum evkaristíunnar. Í mætti sínum er hann nærverandi í sakramentunum þannig að þegar manneskja er skírð, þá er það í reynd Kristur sem annast skírnina (21). Hann er nærverandi í orði sínu vegna þess að það er hann sjálfur sem talar þegar heilagar Ritningar eru lesnar í kirkjunni. Að lokum er hann nærverandi þegar kirkjan biður og syngur vegna þess að það er hann sem gaf fyrirheitið: „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra“ (Mt 18. 20).

Kristur samkennir kirkjuna ávallt við sjálfan sig í þeirri háleitu athöfn þegar Guð er vegsamaður með fullkomnum hætti og menn helgast. Kirkjan er elskuð brúður hans sem ákallar Drottinn og þjónar hinum eilífa Föður í honum. Í helgisiðunum er það hinn leyndardómsfulli líkami Jesú Krists sem annast hina opinberu þjónustu, það er að segja höfðuðið og limirnir. Af þessu leiðir að þar sem sérhver helgisiðaþjónusta er framkvæmd af Kristi, prestinum, og líkama hans sem er kirkjan, þá er hún öllu öðru æðri í heilagleika sínum. Ekkert annað verk kirkjunnar kemst í samjöfnuð við áhrifamátt hennar eða jafnast á við hana í sama mæli.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet