« Ritningarlesturinn 16. október 20067. Samfélag milljarða hjartna »

15.10.06

  06:55:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 658 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 15. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 15. október er úr Markús 10. 17-30

Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?" Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.'" Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku." Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér." En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki." Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?" Jesús horfði á þá og sagði: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt." Þá sagði Pétur við hann: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér." Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Teresu frá Avíla (1515-1582). Hugleiðing dagsins: Heil. Teresa frá Avíla. Úr Veginum til fullkomleikans 26, 3: „Horfið til hans“

Ég fer þess ekki á leit að þið hugsið mikið um hann eða gerið ykkur upp háleitar hugmyndir og leggið rækt við langvinnar og göfugar hugleiðingar í skilningi ykkar. Það litla sem ég fer fram á er að þið horfið til hans. Hver getur komið í veg fyrir að þið snúið sálarsýn ykkar til þessa Drottins, þó að það væri ekki meira en sem svarar einu andartaki, ef þið getið? Ykkur reynist ekki erfitt að horfa á það sem er afar lítilsiglt og hvers vegna ættuð þið þá ekki að geta horft á það fegursta sem við getum sett okkur fyrir sjónir?

Dætur! Augu Brúðguma ykkar hvíla stöðugt á ykkur. Hann hefur ekki snúið við ykkur baki þrátt fyrir allar þær ámælisverðu og viðurstyggilegu syndir sem þið hafið drýgt gegn honum og jafnvel þetta hefur ekki orðið til þess að hann hafi litið undan. Er til of mikils mælst að þið hvarflið augunum einstaka sinnum frá þessum ytri hlutum til að horfa til hans? Hafið í huga að hann væntir einskis annars en þess að við horfum til hans, eins og hann kemst að orði þegar hann talar við brúðina í Ljóðaljóðunum (Ll 2. 14). Ef þið elskið hann munið þið finna hann. Hann metur þetta augnatillit okkar svo mikils að hann lætur ekkert tækifæri ganga sér úr greipum til þess að við beinum því til hans.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet