« Ritningarlesturinn 16. júlí 2006Ritningarlesturinn 14. júlí 2006 »

15.07.06

  06:34:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 510 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 15. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists laugard. 15. júlí er úr Mt 10. 24-33


Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum. Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans? Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar. Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir Föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir Föður mínum á himnum.


Í dag minnist kirkjan: Hl. Bonaventúra (1221-1274), guðfræðings og kirkjufræðara. Hugleiðing dagsins: Hl. Ambrósíus (um 340-397), biskup í Mílan og kirkjufræðari. Hugvekja 20 um 118. sálminn: Að kannast við Krist fyrir mönnum

Daglega getið þið verið vottar Krists fyrir mönnum. Andi óhreinleikans freistaði ykkar, en þið trúðuð því að þið ættuð ekki að vanrækja hreinleika líkama og hugar. Þið eruð píslarvottar Krists, það er að segja vottar hans. Andi stærilætisins freistaði ykkar. En þegar þið sáuð þann sem er snauður og yfirgefinn, voruð þið gagntekin samúð og þið kusuð auðmýktina fram yfir ofmetnaðinn. Þið eruð vottar Krists. Meira en það: Þið kannist ekki einungis við hann í orði, heldur í verkum ykkar.


Hver er besti votturinn? Sá sem játar að Jesús Kristur kemur í holdi (1 Jh 4. 2) og virðir fyrirmæli guðspjallanna. Hversu margir eru þeir ekki þessir þöglu píslarvottar Krists sem kannast við hann daglega, játa Drottin Jesú! Páll postuli þekkti þetta píslarvætti og daglegan vitnisburð trúarinnar vel og hann sagði: Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar (2Kor 1. 12). Hversu margir voru þeir ekki sem játuðu trú sína hið ytra, en höfnuðu henni hið innra. Verið því trúföst og hugrökk í innri ofsóknum til að þið fáið einnig staðist í þeim ytri. Það er einnig um konunga, landstjóra og óttalega dómara að ræða hið innra sem ofsækja ykkur. Þið sjáið dæmi um þetta í þeim freistingum sem Drottinn gekk í gegnum (Mt 4. 1 og áfram).© Bræðralag kristinna trúarkenninga


SJÁ VEFRIT KARMELS:

http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet