« „Við viljum meira nammi . . . við viljum meira nammi!“Ritningarlesturinn 14. ágúst 2006 »

15.08.06

  05:30:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 805 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 15. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 1. 39-56

En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni." Og María sagði: Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans. Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns. Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara. Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega. En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.

Í dag minnist kirkjan: Uppnumningar Maríu Guðsmóður og ætíð Meyjar til himna. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes frá Damskus (um 675-749), munkur, guðfræðingur og kirkjufræðari. Önnur hugvekjan um svefn Maríu, 2. 3: Örk hins Nýja sáttmála gengur inn í hið himneska musteri (1K 8; Opb 11. 19)

Í dag hvílir hin heilaga og lifandi örk lifandi Guðs sem bar sinn eigin Skapara í lífi sínu í musteri Drottins, musteri sem ekki er af mennskum höndum gjört. Davið, forfaðir og skyldmenni Guðs dansar af gleði (2S 7. 14), englarnir dans sem ein heild, erkienglarnir fagna og hinir himnesku tignarvættir heiðra hana með lofgjörðarsöng. . .

Sú sem gerði hinu sanna lífi kleift að streyma fram í allra þágu, hvernig gat hún borið lægri hlut fyrir valdi dauðans? Vissulega gerði hún þetta sem dóttir hins gamla Adams. Hún laut ákvæðum þess valds sem Sonur hennar varð að lúta, honum sem er sjálft lífið og vék sér ekki undan því. En þar sem hún er móðir hins lifandi Guðs er réttmæt að hann hefji hana upp. . . Hvernig er það hugsanlegt að einmitt hún sem bar sjálft lífið í skauti sínu, líf sem er án upphafs og endis, lífi ekki að eilífu? Fyrrum bergðu foreldrar okkar dauðlega ættstofns af víni óhlýðninnar og andi þeirra varð gagntekinn þyngslum sökum hömluleysis syndarinnar og svefndrunginn gagntók þau, svefn dauðans. Drottinn gerði þau brottræk úr paradísargarðinum Eden. En hvernig má vera að sú sem drýgði ekki neina synd og ól Guði Föður barn hlýðninnar sé ekki fagnað í Paradís sem lýkur upp hliði sínu fyrir henni í miklum fögnuði? Kristur sem er Lífið og Sannleikurinn sagði: „Hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn verða“ (Jh 12. 26). Hvernig er það þá hugsanlegt að móðir hans dvelji ekki einmitt þar sem hann dvelur?. . .

Nú þegar himnarnir fagna megi þá allir herskarar englana lofa hana: „Himininn gleðjist og jörðin fagni“ (Sl 96. 11), megi allt mannanna kyn dansa af gleði. Megi sjálfur himininn óma af fagnaðarríkum söng. Megi nóttinn segja skilið við myrkur sitt og afklæðast sorgarklæðum sínum. . . Nú er hin lifandi borg Drottins Guðs herskaranna hafin upp í vegsemd. Úr helgidómi Síonar bera konungar fram dýrmætar gjafir (Sl 68. 30). Þeir sem Kristur setti sem prinsa yfir jörðinni, postularnir, leiða Guðsmóðurina og ætíð Mey inn í hina himnesku Jerúsalem, móður okkar og frelsisborg (Gal 4. 26).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet