« Ritningarlesturinn 15. september 2006Þú breytir gráti okkar í gleðidans og gyrðir okkur fögnuði (sjá Sl 30. 12) »

14.09.06

  07:06:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 483 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 14. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jh 3. 13-17

Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

Í dag fagnar kirkjan: Sigri hins heilaga kross. Krosshátíð að hausti: Upphafning hins heilaga kross.Hugleiðing dagsins: Heil. Þeodór stúdíti (759-826), munkur í Stúdítaklaustrinu í Miklagarði: Krossinn, tré lífsins

Hversu fagur er ekki krossinn ásýndar! Fegurð hans felst ekki í samruna góðs og ills, líkt og átti sér stað forðum við tréð í Edengarðinum. Hann er lofsverður og „gott að eta af honum, fagur á að líta og girnilegur til fróðleiks (sjá 1M 3. 6). Þetta er tré sem veitir líf en ekki dauða, ljós en ekki myrkur. Hann leiðir mannkynið í Edengarðinn en ekki út þaðan. Þetta er tréð sem Kristur sté upp á sem Konungur á sigurvagni sínum og sigraði djöfulinn sem bjó yfir valdi dauðans og hefur endurleyst mannkynið undan ánauðaroki hins ofbeldisfulla. Á þessu tré græddi Drottinn helsár syndarinnar með sárunum á höndum sínum, fótum og síðu, það er að segja eðli okkar sem Satan greiddi svöðusár.

Með dauða hans á þessu tréi höfum við öðlast líf sökum þessa sama trés. Eftir að tréð hafði leitt okkur í tælinguna höfðum við hrakið hinn tælandi höggorm á brott með trénu. Hvílík umskipti! Líf í stað dauða, ódauðleiki í stað fallvaltleikans, dýrð í stað blygðunar. Með réttu hrópaði Páll postuli: „En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists!“ (Gl 6. 14) . . . Ofar allri annarri speki hefur þessi speki blómstrað á krossinum og gert speki þessa heims að haldlausri „orðspeki“ (1Kor 1. 17 og áfram).

Á krossinum var dauðinn deyddur og Adam snéri að nýju til lífsins. Sökum krossins voru allir postularnir dýrlegir, hann var kóróna píslarvottanna og helgaði alla hina heilögu. Sökum krossins höfum við íklæðst Kristi og höfum afklæðst gamla manninum (Ef 4. 22). Sökum krossins höfum við verið leidd til baka sem sauðir Krists og safnað saman í sauðabyrginu í upphæðum.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Drottinn! Gef sérhverjum sannkristnum karli og konu á þessum degi og ávallt þá náð að signa sig fimm sinnum á hverjum morgni til minningar um þín fimm heilögu sár á Fórnarhæð krossins.

Dýrð sé Drottni í kirkjunni ásamt Föðurnum og Heilögum Anda!

14.09.06 @ 07:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Frábær ljóðræn úttekt á hinni hefðbundnu kristnu sýn á krossinn og túlkun hans m.t.t. sköpunarsögunnar.

14.09.06 @ 17:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Heil. Þeodór stúdíti var merkismaður og bréfasafn hans hefur varðveist ásamt sálmum og hugvekjum. Eins og Hinrik Bretakóngur lenti í vandræðum út af kvennafari gagnrýndi Þeodór Mikjáll býsantíumkeisara harðlega fyrir að skilja við konu sína til að kvænast frillu sinni og var að sjálfsögðu sendur í útlegð fyrir bragðið. Þetta var akellesarhæll býsönsku kirkjunnar eins og lúterskra síðar á öldum: Að vera undir hæl ríkisvaldsins. Í bréfi til Mikjáls keisara komst Þeodór svo að orði:

Bjóddu að boð hinnar fornu Rómar verði meðtekin eins og háttur var í arfleifð feðranna frá fornum tímum og frá upphafi. Því, ó keisari, þessi er æðstur í kirkju Guðs þar sem Pétur sat fyrstur á stóli . . . Ég vitna fyrir Guði og mönnum að það [keisaravaldið] hefur sagt skilið við líkama Krists og hið æðsta Sæti (Róm) þar sem Kristur lagði lykla trúarinnar gegn hliði heljar . . . Látið hinn blessaða og postullega Paschal (Paschal páfa I) njóta gleði vegna þess að hann hefur fullkomnað verk Péturs.

Þeir sem vilja ekki draga lærdóm af sögunni [mótmælendur] eru dæmdir til að upplifa hana aftur.

14.09.06 @ 18:46