« Ritningarlesturinn 15. júlí 2006Ritningarlesturinn 13. júlí 2006 »

14.07.06

  06:13:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 580 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 14. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists föstudaginn 14. júlí er úr Matteusarguðspjalli 10. 16-23

16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur. 17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. 18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. 19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. 20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður. 21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. 23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.

Í dag minnist kirkjan: Blessaðrar Kateri Tekakwitha (1656-1680), fyrsta indíánans sem tekinn var í tölu blessaðra

Hugleiðing dagsins:
Heilagur Kýprían (um 200-258), biskup í Karþagó og píslarvottur
Blessun þolgæðisins 13, 16.

„Eins og sauðir meðal úlfa“

Boð Drottins okkar og Meistara eru blessunarrík: „Sá sem stendur allt til enda mun frelsast.“ Hann sagði jafnframt; „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínar og munið þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ (Jh 8. 31). Við verðum að standast og sýna þolgæði, elskuðu bræður. Þannig lýkst leiðin til vonar, sannleika og frelsis upp og við munum höndla þennan sannleika og frelsi. Ef við erum kristnir er það ávöxtur trúar og vonar. En ef vonin og trúin eiga að bera ávöxt krefst slíkt þolgæðis. . .

Við skulum því ekki verða óþolinmóðir og hrasa á Konungsveginum, ekki haltra til beggja handa né bíða ósigur fyrir freistingunum. Við skulum ekki blóta, ekki bölva og ekki krefjast þess til baka sem hrifsað hefur verið frá okkur með valdi. Við skulum bjóða fram hinn vangann og fyrirgefa bræðrum okkar illdæði þeirra, elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. Hvernig getum við uppfyllt þetta allt saman ef við erum ekki rótfastir í þolinmæði og þolgæði? Það er þetta sem við sjáum að Stefán gerði. Hann bað ekki um hefnd, heldur að morðingjum sínum yrði fyrirgefið: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar“ (P 7. 59). Þannig boðaði fyrsti píslarvottur kristindómsins ekki einungis píslir Drottins, heldur líkti eftir ósegjanlegri mildi hans. Þegar þolgæðið hefur skotið rótum í hjarta okkar, er þar ekkert rúm fyrir reiði, ósætti né yfirgangssemi. Þolgæði Krists hrekur allt slík á flótta til að reisa friðarins stað í hjarta okkar þar sem Guði friðarins er velþóknanlegt að gera sér bústað.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet