« Þú breytir gráti okkar í gleðidans og gyrðir okkur fögnuði (sjá Sl 30. 12)Vefrit Karmels »

13.09.06

  09:24:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 688 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 13. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 6. 20-26

Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: „Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki. Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja. Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins. Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina. En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar. Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta. Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Jóhannes Chrysostomos (d. 406), kirkjufræðara. Hugleiðing dagsins: Ísak af stjörnunni (?- um 1171), sístersíani. Önnur predikun á Allra heilagra messu, 13-20: „Sælir eruð þér, sem nú grátið“

„Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða“ (Mt 5. 4). Með þessum orðum vill Drottinn gera okkur skiljanlegt að tárin eru vegurinn til ljúfleikans. Frá örvæntingunni liggur vegurinn til huggunar. Þegar við glötum lífi okkar, finnum við það og öðlumst það með því að hafna því, með því að hara það tökum við að elska það, með því að fyrirlíta það fellur það okkur í skaut (Sjá Mt 16. 24 og áfram). Ef þú vilt öðlast sjálfsþekkingu og hafa stjórn á sjálfum þér skaltu hverfa inn í sjálfan þig og ekki leita hið ytra . . . Hverf þú til sjálfs þín, syndugur maður, til þess sem þú ert í hjarta þínu . . . Sá sem hverfur inn til sjálfs sín finnur sjálfan sig í fjarlægð, rétt eins og glataði sonurinn á ókunnum stað í framandi landi þar sem hann úthellti tárum þegar hann minntist föður síns og heimastöðva (Lk 15. 17).

„Adam, hvar ertu?“ (1M 3. 9). Ef til vill enn í skugga trjánna til að fela þig gagnvart sjálfum þér. Þú hylur nekt þína með laufblöðum hégómleikans til að fela sekt þína og horfir til þess sem þú telur þína eign? . . . Horfðu inn til sjálfs þín . . . Hverf inn til sjálfs þín, syndari, hverf á vit sálar þinnar. Horfðu og úthelltu tárum sökum þessarar sálar sem hneigist til hégómleika og ytri ertinga heimsins og getur ekki varpað af sér ánauðaroki sínu. Blasir það ekki við sjónum, bræður, að við lifum utan okkar sjálfra, að við gleymum okkur sjálfum í sérhvert sinn sem við ánetjumst ytri gleði og einbeitingarskorti og fögnum sökum hins fallvalta? Af þessum sökum bíður Spekin okkur í sífellu að hverfa inn í hús iðrunarinnar fremur en húss gleðinnar, það er að segja að hvetja þá sál sem dvelur utan sjálfrar sín að hverfa til sjálfrar sín með orðunum: „Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja,“ og á öðrum stað: „Vei yður viðhlæjendur.“

Bræður, úthellum tárum okkar í nærveru Drottins sem fyrirgefur okkur í gæsku sinni. Snúum okkur til hans „af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini“ (Jl 2. 12) svo að huggun hans veiti sálum okkur ljúfleika gleðinnar í fyllingu tímans. Sælir eru þeir sem úthella tárum, ekki sökum þess að þeir gráta heldur vegna þess að þeir munu huggaðir verða. Tárin eru vegurinn, huggunin felst í fullsælunni.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet