« Ritningarlesturinn 14. nóvember 2006Ritningarlesturinn 11. nóvember 2006 »

13.11.06

  09:35:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 514 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 13. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 17. 1-6

Hann sagði við lærisveina sína: „Eigi verður umflúið, að til ginninga komi, en vei þeim er veldur. Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af þessum smælingjum til falls. Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum. Og þótt hann misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ,Ég iðrast,' þá skalt þú fyrirgefa honum.“ Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!" En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ,Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,' og það mundi hlýða yður.“
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Francis Xavier Cabrini (1850-1917), fyrsta Bandaríkjamanninn sem tekinn var í tölu heilagra.   Hugleiðing dagsins: Heil. Katrín frá Síena: Úr samræðunum.

Því að ég gef þetta blóð til hjálpræðis og hreinsunar þeim sem undirbúa sig réttilega til að veita því viðtöku. Það veitir líf og skrýðir sálina með sérhverri náðargjöf með hliðsjón af undirbúningi og ástúð viðkomandi sem meðtekur það. Með sama hætti felur það í sér dauða fyrir þann sem meðtekur það óverðuglega og lifir í óhlýðni í myrkri dauðasyndarinnar.

Við þann hinn sama segi ég: Það felur í sér dauða en ekki líf. Ekki sökum þess að blóðinu sé í einhverju áfátt eða sökum ágalla prestsins jafnvel þó að mikil illska gæti leynst í honum. Illska hans hvorki spillir eða saurgar blóðið fremur en að draga úr náð þess og dyggðum og sá prestur sem er fullur illsku skaðar heldur ekki þann sem meðtekur blóðið. En hann vinnur sjálfum sér tjón og sekt sem verður refsað, nema því aðeins að hann bæti ráð sitt með iðrun og yfirbót.

Því segi ég að blóðið skaðar þann sem meðtekur það óverðuglega, ekki sökum þess að blóðinu sé áfátt í neinu eða sökum ágalla prestsins, heldur sökum hans eigin illsku og ágalla vegna þess að hann hefur saurgað huga sinn og líkama af slíkum óhreinleika og eymd og hefur verið miskunnarlaus gagnvart sjálfum sér og náunga sínum. Hann hefur beitt sjálfan sig mikilli illsku vegna þess að hann hefur svipt sig náðinni. Með ástríðum sínum hefur hann troðið ávöxtum blóðsins sem hann þáði í heilagri skírn undir fótum sér þegar saurgun erfðasyndarinnar var afmáð með dyggðum blóðsins.

Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet